Ályktun aðalfundar SVÞ-Samtaka verslunar og þjónustu

Einkarekstur stuðlar að aukinni hagkvæmni og velferð segir í ályktun aðalfundar SVÞ sem fram fór þann 21. febrúar. SVÞ telja að frjáls samkeppni tryggi öðru fremur hagkvæmni og skilvirkni á flestum mörkuðum. "Því er mjög brýnt að verslunin, þjónustufyrirtækin og viðskiptavinir þeirra fái óhindrað að njóta þess ávinnings sem samkeppnin færir. Þar sem ríkið og sveitarfélög geta nýtt krafta einkafyrirtækja til að sinna margvíslegri þjónustu, þ.m.t. verslun, hvetja SVÞ þau til að notfæra sér þjónustu slíkra aðila," segir í ályktuninni.

Þá er í ályktuninni fjallað um útvistun þjónustu og endurgreiðslu skatts af þjónustukaupum. "Enn og aftur árétta SVÞ að ekki er ásættanlegt að ríkisfyrirtæki fái einungis endurgreiddan allan virðisaukaskatt af kaupum á þjónustu einnar atvinnugreinar, tölvuþjónustufyrirtækja. Þjónustufyrirtæki á almennum markaði eiga að njóta jafnræðis í viðskiptum við ríkið. SVÞ hvetja stjórnvöld og Alþingi til að hraða leiðréttingu á þessu og hvetja ráðuneytin til að tryggja að útvistunarstefnu ríkisins um þjónustukaup verði fylgt eftir."

Nánar um aðalfund SVÞ á vef samtakanna