Ályktun aðalfundar SAF 2010

"Í þeirri stöðu sem þjóðfélagið er í á að lækka skatta en ekki hækka. Þannig eykst eftirspurn og störfum fjölgar." Þetta segir m.a. í ályktun aðalfundar Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) sem fram fór í gær. Í henni kemur einnig fram að brýnast sé að allt atvinnulífið fái að búa við vexti sem eru samkeppnishæfir við önnur lönd, öfluga þjónustu fjármálastofnana og afnám gjaldeyrishafta.

Ítarlega umfjöllun um aðalfund SAF má nálgast á vef samtakanna en ályktun aðalfundarins fylgir hér á eftir í heild:

Ályktun aðalfundar SAF

  1. Ferðaþjónustan er ein þriggja stærstu stoða í gjaldeyrissköpun þjóðarinnar og náði því marki á síðasta ári að skila 20% af gjaldeyristekjunum. Íslenskt efnahagslíf mun í síauknum mæli treysta á hana í framtíðinni bæði til tekna og atvinnusköpunar um land allt.

  2. Kallað er eftir samvinnu greinarinnar og stjórnvalda um brýnasta verkefni framtíðarinnar  sem er vöruþróun fyrir vetrarferðamennsku og markaðssetning hennar. Það mun leiða til betri nýtingar á fjárfestingum yfir vetrartímann.

  3. Brýnast alls er að atvinnulífið fái að búa við vexti sem eru samkeppnishæfir við önnur lönd, öfluga þjónustu fjármálastofnana og afnám gjaldeyrishafta.

  4. Bættar samgöngur eru höfuðforsenda fyrir vöruþróun í ferðamennsku á landsbyggðinni, því er skorað á ríkisstjórn að skera ekki niður fjármagn til samgöngumála.

Í þeirri stöðu sem þjóðfélagið er í á að lækka skatta en ekki hækka. Þannig eykst eftirspurn og störfum fjölgar.