Ályktanir aðalfundar LÍÚ 2013

Aðalfundur LÍÚ sem haldinn var í Reykjavík 24. og 25. október 2013, skorar á stjórnvöld að endurskoða lög nr. 74/2012 um veiðigjöld, en í ályktun fundarins segir að álögð veiðigjöld feli í sér verulega mismunun þar sem fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum sem nýti náttúruauðlindir séu ekki skattlögð með sama hætti. "Þessi skattlagning hefur dregið mátt úr greininni, en ljóst er að mörg fyrirtæki hafa ekki og munu ekki standa undir þeim gríðarlegu álögum sem stjórnvöld hafa lagt á. Þá leiðir þessi skattlagning til þess að íslenskur sjávarútvegur mun dragast aftur úr erlendum keppinautum sínum."

Aðalfundur LÍÚ fól stjórn og framkvæmdaráði samtakanna að vinna með stjórnvöldum að mótun tillagna sem byggi á þeim hugmyndum sem settar eru fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

"Aðalfundurinn leggur áherslu á að jafnframt verði tryggt að grundvöllur fiskveiðistjórnunar verði aflamarkskerfi og að unnið verði með tillögur um samningsbundin réttindi sem feli í sér skýran rétt til endurnýjunar.

Aðalfundurinn leggur áherslu á að tillögurnar tryggi öruggt umhverfi og fyrirsjáanleika í rekstrarumhverfi sjávarútvegsins og að ekki sé gengið svo langt í skattlagningu að það hamli fjárfestingu, framþróun og verðmætaaukningu í greininni enda væri slíkt skaðlegt fyrir afkomu greinarinnar og samfélagið í heild."

Frekari ályktanir fundarins má nálgast á vef LÍÚ.

Þar má einnig hægt að lesa fréttir af fundinum og ræðu Adolfs Guðmundssonar, formanns LÍÚ.

Ræða formanns LÍÚ á aðalfundi 2013