Alþjóðleg ráðstefna um samkeppnismál á Íslandi

Föstudaginn 27. september halda atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Samkeppniseftirlitið og áfrýjunarnefnd samkeppnismála alþjóðlega ráðstefnu undir yfirskriftinni "The Future Ain´t What it Used to Be" - 20 years of Competition Law and the Challenges Ahead. Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar er Angel Gurría framkvæmdastjóri Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).

Angel Gurría hefur stýrt Efnahags- og framfarastofnuninni frá árinu 2006 en hann var áður utanríkisráðherra og fjármálaráðherra Mexikó. Nánari upplýsingar um Angel Gurría.

Á ráðstefnunni munu um 30 erlendir og innlendir einstaklingar úr stjórnmálum, atvinnulífinu, fræðasamfélaginu og stjórnkerfinu fjalla um samkeppnismál í litlu hagkerfi og þær áskoranir sem við blasa.

Um morguninn verður meðal annars fjallað um hvernig unnt sé að bæta skilvirkni markaða og stöðuna eftir hina alþjóðlegu fjármálakreppu. Á fjórum vinnustofum eftir hádegi verður fjallað um samkeppni í opinberri þjónustu, varnaðaráhrif sekta í samkeppnislagabrotum, framkvæmd samkeppnislaga á fjarskiptamarkaði og endurreisn efnahagslífsins í kjölfar bankahrunsins.

Aðgangur að ráðstefnunni er ókeypis en skráning er á samkeppni.is