Alþjóðavæðingin og norrænir atvinnurekendur


Samtök atvinnu- og iðnrekenda á Norðurlöndum hafa gefið út rit þar sem sett eru fram sameiginleg viðhorf til alþjóðavæðingar og lýst í stuttu máli hvaða verkefni er að þeirra mati brýnast að takast á við á næstu árum. Ritið er á ensku og ber heitið: Globalisation - views of the Nordic Business Community. Ritið er hægt að nálgast hjá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins  en það er einnig birt á vefsetrum allra norrænu samtakanna.


Eitt einkenni síðustu áratuga er aukin alþjóðavæðing. Gildir þá einu hvort litið er til samstarfs og samvinnu þjóða, umsvifa í atvinnurekstri, samþættingu markaða, fjárfestinga eða samstarfs frjálsra félagasamtaka. Má með sanni segja að heimurinn hafi í vissum skilningi skroppið saman með auknum samskiptum, greiðari samgöngum og ferðalögum, nýrri samskiptatækni og stóraukinni fjölmiðlun. Þessi nýja skipan hefur i senn vakið athygli á og gert auðveldara að fylgjast með mismunandi ástandi og kjörum víðsvegar um heiminn.

Hin síðari ár hafa áhyggjur margra af aukinni alþjóðavæðingu farið vaxandi og telja að í henni felist að ríku þjóðirnar og stórfyrirtækin skari einungis eld að sinni köku á kostnað fátækari þjóðanna undir yfirskini frjálsra viðskipta. Þeir eru þó miklu fleiri meðal stjórnmálamanna og vísindamanna sem telja að frjáls viðskipti og alþjóðavæðing séu besta leiðin til þess að gera hinum fátækari ríkjum heims kleift að auka tekjur sínar, hækka tæknistig og þar með að bæta lífskjör þegna sinna.

Engum blandast hugur um að sameiginlega stöndum við frammi fyrir miklum vanda. Fátækt, vanþróun, mengun, loftslagsbreytingar, spilling, félagslegt óréttlæti, atvinnuleysi og vanvirðing mannréttinda eru brýn vandamál sem verður að glíma við. Besta leiðin til til þess að takast á við þessi vandamál er aukin alþjóðavæðing og opnir markaðir. Við blasa fjögur meginverkefni - að byggja opinn markað þar sem meira jafnræðis er gætt, - að draga úr fátækt, - að stuðla í auknum mæli að sjálfbærri þróun og í síðasta lagi hvernig fyrirtækin og atvinnulífið eiga að takast á við þessi mikilvægu verkefni.

Til þess að fylgja ritinu Globalisation - views of the Nordic Business Community úr hlaði rituðu sex framkvæmdastjórar samtaka atvinnu- og iðnrekenda sameiginlega blaðagrein. Hún birtist þess dagana í norrænum fjölmiðlum, seinast í Morgunblaðinu sunnudaginn 8. desember. 

Sjá ritið í heild:  Globalisation - views of the Nordic Business Community   (pdf-form)