Almenn launahækkun 2,9% um áramót

Um næstu áramót mun almenn launahækkun í helstu aðalkjarasamningum Samtaka atvinnulífsins við stéttarfélög og landssambönd verða 2,9%. Hér undir falla m.a. aðalkjarasamningar Eflingar og SGS, LÍV/VR, Samiðnar, Rafiðnaðarsambandsins, Matvíss, Verkstjórasambands Íslands, Félags bókagerðamanna svo og virkjunarsamningurinn. Margir kauptaxtar, einkum í kjarasamningum iðnaðarmanna, taka sérstakri hækkun umfram almennu lágmarkshækkunina. Um áramótin hækkar ennfremur iðgjald atvinnurekenda til samtryggingarlífeyrissjóðs og framlag atvinnurekenda í fræðslusjóði verkafólks.

Í samningum ársins 2004 var samið um 2,25% hækkun frá 1. janúar 2007 en síðan bættust 0,65% við með samkomulagi forsendunefndar ASÍ og SA í tengslum við skoðun kjarasamninga í nóvember 2005. Almenn hækkun hjá félögum sem sömdu árið 2005 er yfirleitt 2,5% að viðbættum 0,65%, þannig að hækkunin verður 3,15% í þeim tilvikum.

Sjá kaupgjaldsskrá SA fyrir 2007 (tekur við af kaupgjaldsskrá SA nr. 8 frá 1. júlí 2006).

Hækkun framlags atvinnurekenda í lífeyrissjóð

Frá 1. janúar 2007 hækkar iðgjald atvinnurekenda til samtryggingarlífeyrissjóðs úr 7% í 8%.

Fræðslusjóðir verkafólks (Landsmennt og Starfsafl)

Í kjarasamningum vorið 2004 var samið um beinar greiðslur atvinnurekenda í fræðslusjóði verkafólks. Frá 1. janúar 2007 hækkar framlag atvinnurekenda úr 0,05% í 0,15% af launum.