Almannavarnir fjármagnaðar með þjónustugjöldum?

Samtök atvinnulífsins mótmæla því að lagður verði á nýr skattur, s.k. netöryggisgjald, á veltu tiltekinna tegunda fyrirtækja eins og gerð er tillaga um í frumvarpsdrögum innanríkisráðuneytis. Skatturinn á að renna í ríkissjóð og er ótengdur rekstri nýrrar netöryggissveitar sem á að stofna. Nauðsynlegt er að ákvæði frumvarpsins um s.k. netöryggisgjald falli brott ásamt öðrum skattahugmyndum sem tengjast því að halda uppi eðlilegri löggæslu í landinu og tryggja öryggi almennings.

Í umsögn til innanríkisráðuneytisins gera Samtök atvinnulífsins ekki athugasemd við ákvæði frumvarpsdraganna um stofnun netöryggissveitar hjá Ríkislögreglustjóra og að ráðherra sé gert að setja reglugerð um starfsemi sveitarinnar. Þessi ákvæði eiga vel heima í lögum um almannavarnir nr. 82/2008.

Í lögum um almannavarnir kemur fram að þær skuli reknar í þágu almennings í landinu.

„Með fyrirhuguðu s.k. netöryggisgjaldi er mörkuð ný stefna þar sem lagður er sérstakur skattur á fá fyrirtæki til að tryggja öryggi samfélagsins. Þetta er vissulega athyglisvert og sú spurning hlýtur að vakna hvort í undirbúningi séu sérstakir skattar til að bregðast við annars konar vá sem steðjað getur að samfélaginu eða til að standa undir kostnaði við löggæslu almennt. Hverjir skyldu þurfa að greiða gjald til að verjast hugsanlegum flugránum eða almennum hryðjuverkum? Eða er ríkið að gefast upp á að halda uppi öryggisvörnum fyrir almenning í landinu með hluta af þeim 700 milljörðum króna sem ætlað er að renni í ríkissjóð á árinu 2016.“

Á undanförnum árum hefur hlutur fyrirtækja í skatttekjum ríkisins farið sífellt vaxandi. Árið 2013 voru beinar skattgreiðslur fyrirtækja um 24% af tekjum ríkissjóðs en verða nærri 30% af tekjum ársins 2016 samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Beinar skattgreiðslur fyrirtækjanna hækka úr 141 milljarði króna 2013 í 205 milljarða árið 2016 eða um 64 milljarða króna. Á sama tíma lækka skattgreiðslur einstaklinga sem hlutfall af tekjum ríkissjóðs eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

undefined

Í frumvarpsdrögunum er lagt til að lagt verði s.k. netöryggisgjald á tiltekna flokka fyrirtækja sem ætlað er að hefði skilað ríkissjóði 180 m.kr. tekjum á árinu 2014. Samtökin telja þessa tölu vanáætlaða og að líkur séu á að skatturinn geti skilað tvöföldum tekjum til ríkissjóðs miðað við það sem gefið er upp í frumvarpsdrögunum.

Engin tengsl eru milli s.k. netöryggisgjalds og framlaga ríkissjóðs til eflingar netöryggis í landinu. Þau framlög munu einungis ráðast af ákvörðun Alþingis í fjárlögum hvers árs. Þessi skattákvæði eiga alls ekki heima í lögum um almannavarnir og stinga alveg í stúf við lögin að öðru leyti.

Samtök atvinnulífsins telja mikilvægt að skattkerfið sé einfalt og byggi á fáum gagnsæjum og einföldum skattstofnum. Fyrirhugað s.k. netöryggisgjald gengur þvert á þá stefnu, flækir skattkerfið, eykur skriffinnsku og kostnað.

Sjá nánar:

Umsögn SA til innanríkisráðuneytis um netöryggisgjald (PDF)