Allt of langan tíma tekur að fá svör um skipulags- og byggingarmál

Athugun SA á úrskurðum úrskurðarnefndar um skipulags- og byggingarmál sem kveðnir voru upp á árinu 2010 gefur til kynna að það taki að jafnaði meira en 15 mánuði að fá úrskurð nefndarinnar. Samkvæmt reglugerð á nefndin að kveða upp úrskurð innan tveggja mánaða nema málið sé umfangsmikið en þá skal kveða upp úrskurð innan þriggja mánaða. Ljóst er að sigið hefur á ógæfuhliðina í þessum efnum en í athugun umboðsmanns Alþingis árið 2004 kom fram að meðalafgreiðslutími úrskurðarnefndar um skipulags- og byggingarmál var þá tæpir 8 mánuðir þrátt fyrir fyrrgreind tímamörk.

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, sem skipuð er af umhverfisráðherra, rekur upplýsingavef  (www.usb.is) þar sem unnt er að skoða úrskurði nefndarinnar. Árið 2010 kvað nefndin upp 72 úrskurði.  Af þeim voru 7 kveðnir upp innan tveggja mánaða frestsins og 7 til viðbótar innan þriggja mánaða. Samtals voru þetta rúm 19% úrskurðanna.  Úrskurðir í 12 málum voru kveðnir upp frá 3-6 mánuðum frá því nefndinni barst erindi eða kæra og í 3 málum frá 6-12 mánuðum frá því að þau bárust nefndinni. Í 19 málum eða 26% tók 1-2 ár að fá úrskurði. Í þriðjungi mála eða 24 tók meira en 2 ár að fá úrskurð. Það mál sem virtist taka lengstan tíma að fá úrskurð í tók 38 mánuði. Að meðaltali tók það fimmtán og hálfan mánuð að kveða upp úrskurð í þessum 72 málum. Kærufrestur til nefndarinnar er einn mánuður frá því hin kærða ákvörðun er tekin.

Úrskurðarnefndin fjallar um ýmis mál sem tengjast ákvörðunum sveitarfélaga um skipulags- og byggingarmál og fjallar einnig um kærur vegna leyfa til framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum.

Í máli 4193/2004 gaf umboðsmaður Alþingis álit sitt á afgreiðslutíma 48 sjálfstæðra stjórnsýslu- og úrskurðarnefnda og meðal annars um þá nefnd sem hér um ræðir. Fram kemur þar að málsmeðferðartími nefndarinnar hafi verið að lengjast og að hann fari langt yfir lögmæltan úrskurðarfrest og hafi þá verið 231 dagur eða 7,7 mánuðir að meðaltali.

Það er ljóst að þessi langi afgreiðslutími er verulega íþyngjandi fyrir alla þá sem sækja mál fyrir nefndinni. Hætta skapast á því að menn skirrist við að sækja rétt sinn og þannig sé gengið á réttaröryggi borgaranna sem geta verið einstaklingar eða fyrirtæki.

Nauðsynlegt er að stjórnvöld taki hér í taumana og vinni markvisst að úrbótum. Engin leið er að sætta sig við að þessi úrskurðarnefnd sem hér er fjallað um fari ekki að lögum og reglum sem um hana gilda.

Tengt efni:

Úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir virðir ekki lög