Aldur hefur ekki áhrif á atvinnumöguleika

Möguleikar atvinnulausra á að fá starf hafa ekkert með aldur þeirra að gera. Meðal þess fólks sem danskar atvinnumiðlanir hafa vísað í atvinnuviðtöl hafa eldri aldurshóparnir komið svipað út og aðrir, að þeim allra yngstu undanskildum. Þetta kemur fram í sérstakri athugun sem danska vinnumálastofnunin gerði að beiðni samtaka atvinnulífsins í Danmörku. Samkvæmt athuguninni fær u.þ.b. einn af hverjum þremur atvinnulausum á aldrinum 50-59 ára starfið, fari þeir í atvinnuviðtal. Einungis í allra yngsta hópnum, yngri en 25 ára, er hlutfallið hærra. Sjá nánar í fréttabréfi samtaka atvinnulífsins í Danmörku.