Áhugaverð málþing háskólamanna um sjávarútvegsmál

Áhugahópur háskólamanna um sjávarútvegsmál efnir á næstunni til tveggja málþinga í Öskju Háskóla Íslands þar sem fjallað verður um helstu kosti, hagkvæmni og gildi kvótakerfsins. Málþingin eru öllum opin en sjávarútvegs- og kvótamál eru ofarlega á baugi í þjóðmálaumræðunni um þessar mundir.

Fyrra málþingið fer fram nk. þriðjudag 8. mars kl. 15:00 til 17:00 í stofu N-132 í Öskju

Þar verður fjallað um þjóðfélagslega hagkvæmni kvótakerfsins, hugsanlega upptöku ríkisins á kvótrarétti, upphaflegu úthlutunina og fleiri mikilvæg málsatriði út frá akdemískum sjónarhóli. Á málþinginu fjallar dr. Ragnar Árnason prófessor um kvótakerfið og hagkvæmni í sjávarútvegi og dr. Daði Már Kristófersson dósent ræðir um upptöku kvótaréttinda og hagkvæmni í sjávarútvegi. "Upphafleg úthlutun kvótaréttinda: lögmæti, réttlæti" nefnist þriðja erindi dagsins, en það flytur Helgi Áss Grétarsson sérfræðingur. Fundarstjóri verður Þórólfur Þórlindsson, prófessor.

Seinna málþingið verður haldið þriðjudaginn 15. mars nk. kl. 15:00 til 17:00 í stofu N-132 í Öskju.

Þar fjalla fræðimenn um þróun og framleiðni í sjávarútvegi landsmanna, áhrif kvótakerfisins á byggðaþróun á Íslandi og hvernig upptaka kvótaréttinda muni virka á byggðaskatta. Á málþinginu verða flutt þrjú erindi. Dr. Sveinn Agnarsson forstöðumaður flytur fyrirlesturinn "Hagkvæmni í sjávarútvegi:þróun, framleiðni." Dr. Birgir Þór Runólfsson, dósent, mun ræða um kvótakerfið og byggðaþróun á Íslandi en dr. Ragnar Árnason prófessor fjallar um upptöku kvótaréttinda og skatta sem falla munu á byggðir landsins. Fundarstjóri verður Illugi Gunnarsson hagfræðingur.