Áhrif þróunar ESB á EES-samninginn
Ráðgjafarnefnd EFTA hefur samþykkt álit til fastanefndar samtakanna um hagsmunagæslu EFTA vegna áhrifa þróunar ESB á EES-samninginn. Í álitinu er horft til stækkunar ESB og EES, til framtíðarráðstefnu ESB og hugsanlegrar stjórnarskrár sambandsins, og loks til svokallaðrar Lissabon-áætlunar ESB um aukna samkeppnishæfni aðildarríkjanna. Almennt leggur nefndin höfuðáherslu á að EFTA fylgist grannt með þessari þróun og áhrifum á EES-samninginn, og móti stefnu sem fyrst um hvernig best verði staðinn vörður um hagsmuni EFTA-ríkjanna þegar við á.
EES-samningurinn fyrirmynd samskipta ESB við fleiri
ríki?
Á svokallaðri framtíðarráðstefnu ESB eru m.a. ræddar breytingar á
stjórnkerfi sambandsins og möguleg stjórnarskrá þess. Þetta kann
m.a. að kalla á tæknilega aðlögun EES-samningsins, en aðildarríkin
eru nú hinir formlegu samningsaðilar. Þá er mikið rætt um
framtíðarfyrirkomulag samskipta ESB við nágrannaríki á borð við
Rússland og ýmis ríki Norðurafríku. EES-samningurinn hefur þar
verið til umræðu sem möguleg fyrirmynd. Rágjafarnefndin leggur í
áliti sínu áherslu á að náið verði fylgst með þessari þróun og
beinir athyglinni að þeirri spurningu hvaða áhrif framlenging
fjórfrelsins til fleiri ríkja utan ESB myndi hafa á virkni innri
markaðarins.
Áhersla á stækkun EES samtímis stækkun ESB
Nefndin telur stækkun ESB og EES almennt vera jákvæða
fyrir fólk og fyrirtæki í EFTA-aðildarríkjum EES, þótt lýst sé
áhyggjum af skertum markaðsaðgangi fyrir sjávarafurðir. Hún leggur
hins vegar áherslu á mikilvægi þess að samningar við ESB náist
tímanlega svo að af stækkun EES geti orðið samtíms stækkun ESB.
EFTA-ríkin styrki aðgerðaáætlun sína vegan
Lissabon-ferlisins
Loks leggur ráðgjafarnefndin til að EFTA-ríkin uppfæri og
styrki aðgerðaáætlun sína vegna Lissabon-ferlis ESB, sem ætlað er
að efla samkeppnishæfni aðildarríkjanna. Í áliti sínu bendir
nefndin á mikilvægi þess fyrir hvert ríki að þarlend fyrirtæki geti
staðið sig í alþjóðlegri samkeppni. EFTA-ríkin þurfi því að taka
þátt í aðgerðum til eflingar samkeppnishæfni og leggja þannig grunn
að áframhaldandi aukningu verðmætasköpunar og bættum
lífskjörum.
Sjá álit (opinion) ráðgjafarnefndar EFTA.
Ráðgjafarnefnd EFTA er skipuð fulltrúum aðila vinnumarkaðarins o.fl. aðila í aðildarríkjum samtakanna.