Áhrif opinberra aðgerða á verðlag, kaupmátt og afkomu fyrirtækja árið 2014

Vinnuhópur samstarfsnefndar aðila vinnumarkaðarins á almennum og opinberum vinnumarkaði hefur skilað af sér skýrslu um áhrif opinberra aðgerða á verðlag, kaupmátt og afkomu fyrirtækja á árinu 2014. Skýrsluna ásamt helstu niðurstöðum má nú nálgast á vef SA.

Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

1.     Verðlagsáhrif

Hækkun vörutengdra gjalda og skatta í fjárlögum 2014 hækka vísitölu neysluverðs um 0,19%. Ríkisstjórnin mun endurskoða til lækkunar vissar breytingar á gjöldum sem ákveðin voru í fjárlögum, sbr. bréf fjármálaráðherra til forsvarsmanna ASÍ og SA, dags. 21. desember sl.

Einu verðlagsáhrifin sem rakin eru til ákvarðana sveitarfélaga stafa af hækkun fasteignamats. Vísitöluáhrifin af hækkun vatnsskatts og holræsagjalds nema samtals 0,064%.

2.     Áhrif á ráðstöfunartekjur heimilanna

Tekjur heimilanna munu hækka um tæpa 4 milljarða kr., einkum vegna sérstakrar hækkunar elli- og örorkulífeyris, en jafnframt munu skattar á tekjur og eignir lækka um 2,8 milljarða kr. Samanlagt hækka ráðstöfunartekjur heimilanna um 6,7 milljarða kr. vegna ákvarðana í fjárlögum 2014, sem nemur 0,7% af áætluðum ráðstöfunartekjum þeirra árið 2014.

3.     Áhrif aðgerða á afkomu fyrirtækja

Samantekið aukast álögur á fyrirtæki um 35,6 milljarða kr. á næsta ári vegna opinberra aðgerða. Ef bankaskattinum sem leggst á fjármálafyrirtæki í slitameðferð er sleppt, og þannig litið til hins virka atvinnulífs, aukast álögur á atvinnulífið um 7,3 milljarða kr.

Skýrsluna má sækja hér (PDF)