Áhrif efnahagslegs frelsis á stöðu gjaldmiðla í heiminum

Ráðstefna um áhrif aukins efnahagslegs frelsis á stöðu gjaldmiðla í heiminum verður haldin á Hótel Nordica fimmtudaginn 23. ágúst. Það er Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál (RSE) sem stendur fyrir ráðstefnunni undir yfirskriftinni Gjaldmiðlar og alþjóðavæðing. Framsögumenn verða Benn Steil, forstöðumaður alþjóðahagfræðisviðs hjá Council on Foreign Relations, Gabriel Stein, aðalhagfræðingur alþjóðahagfræðisviðs hjá Lombard Street Research, Manuel Hinds, fyrrum fjármálaráðherra El Salvador og Ársæll Valfells, lektor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands. Ráðstefnan er milli kl. 16:10 og 18:30. Fundarstjóri er Illugi Gunnarsson, alþingismaður.

Á ráðstefnunni verður leitast við að svara spurningunni um stöðu þjóðargjaldmiðla s.s. krónunnar á tímum aukinnar alþjóðavæðingar og efnahagslegs frelsis. Ennfremur verður velt upp spurningunni um hvort nauðsynlegt sé fyrir smáríki að gerast aðili að myntbandalagi til að taka upp aðra mynt. Þá verður litið til ríkja sem hafa tekið upp aðra mynt en sína eigin, hvernig það var gert og hvernig það hefur reynst.

Auk framsögumanna munu innlendir sérfræðingar og aðilar úr viðskiptalífinu ræða nánar um málefni ráðstefnunnar. Ráðstefnan fer fram á ensku og eru allir velkomnir.

Sjá nánar: Dagskrá ráðstefnunnar á vef RSE