Afstaða atvinnulífsins til loftslagsviðræðna á Balí

Í næstu viku hefst á Balí loftslagsráðstefna aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna þar sem viðræður hefjast um hvað taki við þegar tímabil Kyoto-bókunarinnar rennur út. Samtök atvinnulífsins verða með fulltrúa á ráðstefnunni en samtökin leggja áherslu á að fyrirtæki í sömu grein búi við sömu eða svipaðar kröfur hvar sem þau eru staðsett í heiminum. SA styðja að sambærilegt ákvæði og svokallaða íslenska ákvæði fylgi nýju alþjóðlegu samkomulagi. Mikilvægt er að ákvörðun um frekari skuldbindingar Íslands byggi á raunhæfu mati á aðgerðum, möguleikum til að draga úr útstreymi hér á landi og hagkvæmni þeirra aðgerða.

Brýnt alþjóðlegt úrlausnarefni

Fyrr í þessum mánuði gaf Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar út fjórðu yfirlitsskýrslu sína og ljóst að miklar umræður um loftslagsmálin munu eiga sér stað á alþjóðavettvangi á næstunni. Umhverfisráðuneytið efndi nýverið til upplýsingafunda um loftslagsmál fyrir alþingismenn og frétta- og blaðamenn. Pétur Reimarsson, forstöðumaður hjá SA, fór þar yfir afstöðu íslensks atvinnulífs til loftslagsmálanna, en glærur hans frá fundunum má nálgast hér að neðan.

Í erindi sínu rakti Pétur sjónarmið atvinnulífsins en hann sagði m.a. að vandinn væri viðurkenndur og það væri brýnt að vinna gegn honum á alþjóðavettvangi. Mikilvægt væri að sem fyrst lægi fyrir rammi um þær viðræður sem þurfi að eiga sér stað og undirstrikaði hann að atvinnulífið væri hluti af lausninni. Fyrirtæki taki þátt í að draga úr útstreymi með því að þróa nýja tækni, beita nýjum aðferðum og með því að stunda rannsóknir og nýsköpun.

Efnahagslega raunhæft

Samtök atvinnulífsins eiga aðild að Evrópusamtökum atvinnulífsins (BUSINESSEUROPE) en þau hafa lagt áherslu á að tímaáætlun verði lögð fram á Balí. Nauðsynlegt sé að upplýsa atvinnulífið um að ríki heims stefni að alþjóðlegu samkomulagi og rammi þess liggi fyrir sem fyrst. Samkomulagið verði að vera efnahagslega raunhæft og byggja á getu einstakra ríkja til aðgerða. Það megi ekki raska samkeppnisstöðu fyrirtækja sem keppa á alþjóðlegum markaði.

Rætt er við Pétur í Viðskiptablaðinu í dag en þar segir Pétur að SA miði sína stefnu við aðstæður á Íslandi en stjórn samtakanna hafi mótað á síðasta ári sérstakar áherslur í loftslagsmálum.  "Við höfum fylgst með því sem er að gerast erlendis og það eru engir núningsfletir milli okkar og viðskiptalífsins erlendis."

Sjá nánar:

Glærur Péturs á upplýsingafundi umhverfisráðuneytisins

Áherslur SA í loftslagsmálum

Vefur Viðskiptablaðsins