Áfrýjun umhverfisráðherra verði dregin til baka

Á undanförnum árum hafa umhverfisráðherrar ítrekað staðfest skipulagstillögur sveitarfélaga þar sem framkvæmdaaðilar hafa greitt sveitarfélögum kostnað sem fallið hefur til við breytingar á skipulaginu. Þessi háttur hefur tíðkast í mörg ár og umhverfisráðherra aldrei gert við það athugasemd fyrr en í janúar á þessu ári að Svandís Svavarsdóttir, sem nú gegnir starfinu, neitaði að staðfesta aðalskipulag Flóahrepps og Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Það var ekkert ákvæði í skipulagslögum sem bannaði sveitarfélögum að innheimta áfallinn kostnað vegna breytinga á skipulagi sem tengjast einstakri framkvæmd. Þvert á móti er eðlilegt að þessi háttur sé hafður á í stað þess að leggja þennan kostnað á íbúa sveitarfélaga eða allan almenning í landinu með almennum sköttum.

Ákvörðun umhverfisráðherra um að synja staðfestingu skipulagstillögunnar var því í andstöðu við fyrri afstöðu ráðuneytisins, þá stefnu sem ríkt hefur og þau vinnubrögð sem sveitarfélögin hafa geta gengið út frá.

Niðurstaða héraðsdóms          
Þann 17. september sl. ógilti Héraðsdómur Reykjavíkur ákvörðun umhverfisráðherra um að synja staðfestingu aðalskipulags Flóahrepps. Rökstuðningurinn er meðal annars sá að ekkert í lögum banni að framkvæmdaaðili greiði kostnað vegna skipulagsvinnu og dómurinn felst ekki á að það ógni réttaröryggi í meðferð skipulagsmála sveitarfélagsins eða stríði gegn markmiðum laganna eins og ráðherra hafði haldið fram.

Ný skipulagslög
Tæpri viku eftir að dómurinn féll eða þann 23. september sl. samþykkti Alþingi ný skipulagslög (nr. 123/2010). Þetta var þriðja tilraun til að fá ný heildstæð skipulagslög samþykkt. Í tvö fyrri skiptin var í frumvarpi ráðherra gert ráð fyrir því að sveitarfélög gætu innheimt kostnað vegna skipulagsvinnu í þágu einstakra framkvæmda. Þannig var það vilji tveggja fyrrverandi umhverfisráðherra að staðfesta þann hátt sem tíðkast hafði um hríð.

Í frumvarpi núverandi umhverfisráðherra til nýrra skipulagslaga sem lagt var fram á síðasta þingi var ekki að finna heimild sveitarfélaga til umræddrar gjaldtöku, né var þar lagt sérstakt bann við henni. Reyndar var í greinargerð með frumvarpinu að finna sérstakan rökstuðning með gjaldtökunni sem ráðherra hafði gleymt að taka burt um leið og ákvæðið um gjaldtöku var þurrkað út.

Í umfjöllun Alþingis var hins vegar frumvarpi ráðherrans breytt og í sameiginlegu nefndaráliti allrar umhverfisnefndar Alþingis sem dagsett er 31. ágúst sl. segir:

"Nefndin ræddi ítarlega gjaldtöku fyrir skipulagsvinnu og telur sterk rök hníga að því að sá sem verður til þess að vinna þarf nýtt eða breytt skipulag greiði fyrir slíka vinnu. Vinna af þessu tagi er oft tímafrek og kostnaðarsöm og mikilvægt að sveitarstjórnir geti sett gjaldskrá og innheimt útlagðan kostnað. Greiðsla eftir gjaldskrá vegna skipulagsvinnu felur þó ekki í sér ígildi afgreiðslu á skipulagi enda fer um hana samkvæmt öðrum ákvæðum. Nefndin leggur því til breytingu til samræmis við frumvarpið eins og það var lagt fram á 135. þingi."

Niðurstaða Alþingis varð hin sama og nefndarinnar, þ.e. ný skipulagslög (nr. 123/2010) heimila sveitarfélögum að innheimta kostnað vegna skipulagsvinnu í þágu einstakra framkvæmda.

Áfrýjun til Hæstaréttar
Einhverjir hefðu nú haldið að umhverfisráðherra þætti nóg að gert. Bæði væri kominn dómsúrskurður um að umrædd gjaldtaka væri heimil og þar að auki Alþingi búið að samþykkja ný lög sem heimila sambærilega gjaldtöku.

Nei, svo var alls ekki og hefur ráðherra ákveðið að áfrýja málinu til Hæstaréttar. Á miðvikudag (6. október sl.) svaraði umhverfisráðherra fyrirspurn um áfrýjunina með eftirfarandi orðum: 

 "...það er mitt mat og ráðuneytisins að leiðsögn héraðsdóms hafi ekki verið nægilega skýr að því er varðar kostnaðarskiptingu við skipulag almennt milli sveitarfélaga og framkvæmdaraðila og þá þarf að fá úr því skorið fyrir stjórnvöld og ekki síður fyrir sveitarfélög. Þetta er auðvitað í samræmi við núgildandi lög og eins og þingmaðurinn bendir réttilega á samþykktum við hér nýverið lög þar sem mælt er fyrir um kostnaðarákvæði í þeim lögum með talsvert öðrum hætti. Þar er gefinn möguleiki á gerð samninga að því er varðar þessa kostnaðarhlutdeild en það er mikilvægt að þessar meginreglur komi fram af hálfu Hæstaréttar og kunni þá að hafa yfirfærslugildi á ný lög."

Þegar þessi orð eru lesin þá eru þau ekki auðskilin en augljóst er að ráðherra er kominn út í horn. Dómurinn var alveg afdráttarlaus og núgildandi lög heimila gjaldtökuna. Hvað svo sem Hæstiréttur kann að segja um skipulag Flóahrepps þá mun það ekki hafa nein áhrif á þau skipulagslög sem nýlega voru samþykkt og ekki hafa neitt gildi fyrir framtíðina.

Þvert á loforð forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar
Áfrýjun ráðherra hefur þann eina tilgang að tefja fyrir framkvæmdum við einn hagkvæmasta og umhverfisvænsta virkjanakost sem til er hér á landi þar sem eru virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Með þessu er hún að þóknast þröngum flokkshagsmunum Vinstri grænna sem hafa ályktað um virkjanir við Þjórsá og falið "þingflokki og ráðherra VG að sjá til þess að ekki verði í þær ráðist". Einnig hefur komið fram að þingmaður VG, Atli Gíslason, hefur beitt sér sérstaklega við umfjöllun málsins í umhverfisráðuneytinu.

Með þessu tryggir ráðherra minni hagvöxt en ella, meira atvinnuleysi, minni kaupmátt almennings og takmarkar getu ríkissjóðs og sveitarfélaga til að verja velferðarkerfið í landinu.

SA álíta að umhverfisráðherra hafi með framferði sínu í þessu máli sýnt  óbilgirni og þjónkun við þrönga pólitíska hagsmuni og þar með stórskaðað endurreisn íslensks atvinnulífs. Slíkt framferði gengur þvert á öll loforð forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar og hlýtur forsætisráðherra að velta fyrir sér stöðu ráðherra sem þannig haga sér.

Samtök atvinnulífsins hafa í dag sent forsætisráðherra bréf þar sem þess er óskað að ríkislögmaður dragi til baka áfrýjun málsins til Hæstaréttar.

                                                                                

Sjá nánar:

Bréf Samtaka atvinnulífsins til forsætisráðherra 8. október 2010

Tengt efni:

Viðtal við Vilmund Jósefsson í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni 8. október 2010

(Viðtal hefst eftir 1 mínútu og 25 sekúndur af upptökunni).