Fréttir - 

15. Júní 2016

Áfram Ísland

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Áfram Ísland

Langflest fyrirtæki á Íslandi eru lítil eða örsmá. Þau mynda hryggjarstykkið í íslensku atvinnulífi. Þau byggja á því að veita þjónustu, framleiða vörur og uppfylla þarfir sem eigendur þeirra hafa komið auga á. Reksturinn gengur út á að gera sífellt betur og að tekjur séu umfram kostnað. Að því leyti eiga litlu fyrirtækin margt sameiginlegt með heimilunum þar sem ráðdeild, hagsýni og hugkvæmni skila fjölskyldunum smám saman ábata.

Langflest fyrirtæki á Íslandi eru lítil eða örsmá. Þau mynda hryggjarstykkið í íslensku atvinnulífi. Þau byggja á því að veita þjónustu, framleiða vörur og uppfylla þarfir sem eigendur þeirra hafa komið auga á. Reksturinn gengur út á að gera sífellt betur og að tekjur séu umfram kostnað.  Að því leyti eiga litlu fyrirtækin margt sameiginlegt með heimilunum þar sem ráðdeild, hagsýni og hugkvæmni skila fjölskyldunum smám saman ábata.

Íslenskt efnahagslíf er smám saman að jafna sig eftir hrunið 2008. Fyrirtækjum hefur fjölgað, umsvifin aukist, rekstur þeirra batnað og skuldir lækkað. Það á stóran þátt í því að laun hafa hækkað umfram verðlag og með öðru ýtt undir betri afkomu heimilanna.

Hagur atvinnulífsins og heimilanna er nátengdur. Ólíklegt er að afkoma þess fyrrnefnda geti batnað verulega án þess að það komi fram hjá heimilunum. Þetta virkar einnig í hina áttina eins og glöggt kom fram í kjölfar hrunsins.

Það er því mikilvægt fyrir alla að það takist að bæta hlutina jafnt og þétt, ekki í stórum stökkum, heldur í smáum skrefum sem hvert og eitt lætur lítið yfir sér.

Jafnvægið sem nú ríkir í efnahagslífinu er því kærkomið og á sinn þátt í að Íslendingar eru á góðri leið með að skilja við hrunið og afleiðingar þess. Það ber minna á neikvæðni en áður og flestir virðast horfa framtíðina björtum augum. Jákvæðni, að ganga glaður til verka sinna og horfa fram á veginn, er líklegri til að skila árangri en sífelldur bölmóður og svartsýni. Þar með er ekki verið draga úr nauðsyn þess að læra af mistökum fyrri tíma og að komast hjá því að endurtaka þau. En fortíðin má ekki yfirskyggja daglegt líf og framtíðarsýn.

Farsæll rekstur fyrirtækja byggir á því að standast samkeppni, að blanda saman fólki með mismunandi bakgrunn og fjölþætta reynslu, nýta aðföngin sífellt betur og þannig búa til ný verðmæti. Það er sífellt verið að gera sama hlutinn, aftur og aftur, bara aðeins betur en áður.

Árangur samfélagsins er árangur heildarinnar, okkar allra, og hann er meiri en framlag hvers og eins.

Með hógværðinni hefst það. Um það sjáum við dæmi víða. Lærum af því.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA.

Leiðari fréttabréfsins Af vettvangi í júní 2016.

Samtök atvinnulífsins