Áform um lækkun vaxta til bóta - ríkisbankaleið ófær

Morgunblaðið og Fréttablaðið leituðu viðbragða Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra SA, við myndun nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna. "Ég hef verið að skoða verkefnaáætlunina og mér sýnist sem að það sé ýmislegt, eins og lækkun vaxta og eitthvert undanhald í gjaldeyrishöftum, sem sé til bóta," segir Vilhjálmur um nýju stjórnina. Hann telur þó að kveða hefði mátt skýrar að orði um afnám gjaldeyrishaftanna að fullu. "Síðan er það algjörlega nauðsynlegt að það verði ábyrg ríkisfjármálastefna og að framkvæmd verði þau fjárlög sem við búum við," segir Vilhjálmur í Morgunblaðinu í dag.

"Það sem ég sakna helst í verkefnaskránni er ákvörðun um að hverfa frá ríkisbankafyrirkomulaginu. Það þarf að virkja erlenda kröfuhafa til að koma að eignarhaldi bankanna. Ég hefði viljað sjá nýja ríkisstjórn gefa merki um að það verði gert og að ekki verði byggt hér upp nýtt ríkisbankakerfi," segir Vilhjálmur í samtali við Fréttablaðið. Hann telur að ríkisbankarnir verði aldrei nógu burðugir fyrir atvinnulífið.