Áfengis- og vímuefnapróf á vinnustað

Nýlega birtist grein í Svenska Dagbladet þar sem fram kom að samkvæmt nýrri könnun styddust 70 af 100 stærstu fyrirtækjum í Svíþjóð við próf til að sporna gegn  vímuefnanotkun meðal starfsmanna sinna. Tæpur helmingur þessara fyrirtækja nýtti sér slík vímuefnapróf bæði við nýráðningu starfsmanna og við grun um vímuefnanotkun.  Fjórðungur fyrirtækjanna framkvæmdi slík próf bæði reglulega og tilviljunarkennt á öllu starfsfólki sínu. Könnunin sýndi ennfremur að notkun vímuefnaprófa er ekki lengur takmörkuð við þær atvinnugreinar sem talist geta sérstaklega hættulegar eða áhættusamar fyrir starfsfólk, heldur eru fyrirtæki í flestum atvinnugreinum farin að gera kröfu um að starfsfólk sitt undirgangist vímuefnapróf. Er þessi þróun í Svíþjóð í takt við þróunina í Evrópu í heild.

Stuðlar að öryggi á vinnustað

Ástæða fyrir aukinni notkun áfengis- og vímuefnaprófa er talin vera sú að með aukinni notkun vímuefna í þjóðfélaginu sé óhjákvæmilegt að um aukningu á notkun sé einnig að ræða meðal launþega sem skapar auknar líkur á slysum á vinnustað. Vímuefnapróf á starfsfólki stuðla að því að auka öryggi á vinnustað, bæði hvað varðar þann starfsmann sem neytir vímuefna og  þá ekki síður öryggi samstarfsmanna hans.

Mannréttindadómstóllinn: réttlætanleg próf

Mál frá Danmörku og Svíþjóð er varða áfengis- og vímuefnapróf á vinnustað hafa komið til kasta Mannréttindadómstóls Evrópu. Þar var því haldið fram að skylda starfsmanns til að undirgangast áfengis- eða vímuefnapróf bryti í bága við friðhelgi einkalífs og væri brot á 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Í báðum tilvikum komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að kærurnar væru augljóslega illa grundaðar og því ótækar til meðferðar. Mál Wretlund gegn Svíþjóð (nr. 46210/99) snerist um starfsmann við ræstingar í kjarnorkuveri sem skyldi gangast undir vímuefnapróf þriðja hvert ár. Í því tilviki taldi Mannréttindadómstóllinn að starfsmaðurinn hefði fengið fræðslu um vímuefnaprófin fyrirfram og að framkvæmd vímuefnaprófa og meðferð niðurstaðna úr þeim væri forsvaranleg. Með hliðsjón af almennu öryggi og þá sérstaklega öryggi annarra starfsmanna væru vímuefnaprófin réttlætanleg. Í máli Madsen gegn Danmörku (58341/00) var deilt um tilviljanakennd vímuefna- og áfengispróf á skipverjum farþegaskips. Einnig í því tilviki voru prófin talin réttlætanleg til að vernda almannaöryggi og réttindi annarra. 

Áskilinn réttur

Íslensk fyrirtæki hafa áskilið sér rétt til að kalla starfsmenn í vímuefnapróf í starfsumsókn og ráðningarsamningi sem starfsmaður undirritar, þótt það sé ekki algengt enn sem komið er. Talið hefur verið að það feli í sér samþykki starfsmanns við vinnslu viðkomandi persónuupplýsinga og sé í samræmi við lög um persónuvernd nr. 77/2000.