Af dyggðum og löstum stjórnenda og stjórnmálamanna

"Fréttirnar sem við fáum frá Evrópu þessa dagana segja okkur að vonir um hagvöxt þar fari dvínandi samhliða því að ráðamenn glíma við mikinn skuldavanda nokkurra aðildarríkja Evrópusambandsins og þau áhrif sem þessi skuldavandi hefur á evrusamstarfið. Íslenskt efnahagslíf á mikið undir því að vel takist til við úrlausn þessara vandamála vegna þess hversu þýðingarmikill Evrópumarkaðurinn er. Eftirspurn eftir íslenskum útfluningsvörum og þjónustu er háð því hvernig okkar viðskiptaþjóðum vegnar og stöðu á einstökum mörkuðum.

Það er áhugavert að bera saman þann vanda sem nú er til umfjöllunar við þann vanda sem skapaðist við fjármálakreppuna 2008, bæði hér á landi og í alþjóðlegu samhengi. Segja má að orsakir kreppunnar 2008 megi rekja til einkageirans, hvort heldur hér á landi eða annars staðar. Menn fóru alltof víða offari í áhættutöku og ábyrgðarleysi í lánveitingum og lántökum í fjármálakerfinu og öðrum fjármálatengdum aðgerðum sem endaði með ósköpum hér á landi sem víðar og íslenskt efnahagslíf bar af stórkostlegt tjón.

Vandamálin nú snúast hins vegar um stjórnarhætti í opinbera geiranum víða um lönd. Stjórnmálamenn í mörgum löndum hafa gengið fram af miklu ábyrgðarleysi og safnað skuldum í gegnum tíðina umfram það sem skattgreiðendur nútíðar og framtíðar geta greitt með eðlilegum hætti. Nú er komið að skuldadögunum hjá þessum ríkjum, s.s. Grikklandi, Portúgal, Spáni og Ítalíu og spurningarmerki sett við önnur, s.s. Frakkland og jafnvel Bandaríkin.

Áhugavert er að velta þessum málum fyrir sér frá öðrum sjónarhóli en venjulega er fjallað um í fréttum. Í atvinnulífinu er heilbrigður metnaður nauðsynlegur og öllum rekstri fylgir áhætta. Það verða engar fjárfestingar eða framfarir nema forystumenn í atvinnulífi og eigendur fyrirtækja séu tilbúnir til að taka áhættu og hafi metnað fyrir sína hönd og fyrirtækja sinna. Þannig lítum við almennt á metnað sem dyggð sem er sannarlega mikilsverð og aflvaki þess sem gerist í atvinnulífinu. En svo er mannkynið líka með lestina í farteskinu og þeir finnast hjá þátttakendum í atvinnulífi eins og öðrum. Þá verður metnaðurinn að ofmetnaði, hroka og græðgi sem eru hinir algengu lestir sem allir þurfa að varast. Einhvers staðar þarna á milli er línan sem ekki er alltaf augljós. Hvenær verður metnaðurinn að græðgi?

Í opinbera geiranum felst samsvarandi dyggð í einlægum vilja og þörf til þess að þjóna fólkinu, kjósendum. Góður stjórnmálamaður er bæði þjónn og leiðtogi í senn. En lestirnir fylgja líka stjórnmálamönnum eins og öðrum. Við rifjum oft upp þá staðhæfingu að allt vald spilli, en lestir stjórnmálamannsins felast í valdagræðgi, lýðskrumi, vinsældasýki og ábyrgðarleysi. Og líka má segja að samfélagið þurfi sannarlega á dyggðugum stjórnmálamönnum að halda sem hafa einlægan vilja til að þjóna samfélaginu öllu. En einhvers staðar er svo línan á milli þjónustulundarinnar og valdagræðginnar eða vinsældasýkinnar. Hvenær verður dyggðin að lesti?

Fjármálakreppan 2008 og skuldakreppan nú skapa, og hafa skapað, mikla erfiðleika hér og í öðrum löndum. Það er þó ákveðin huggun harmi gegn, og sýnir í raun styrk markaðshagkerfisins, að í þessum erfiðleikum skuli mönnum almennt séð refsað fyrir lesti en umbunað fyrir dyggðir. Markaðirnir refsuðu þeim sem fóru offari í fjármálakerfinu og tóku of mikla áhættu árið 2008. Og nú eru markaðirnir að refsa þeim ríkjum þar sem stjórnmálamenn hafa farið offari í ábyrgðarleysinu.

Fjármálakreppan og skuldakreppan eiga eftir að hafa áhrif á næstu árum og fyrir ýmsar þjóðir getur tekið mörg ár að vinna sig út úr vandanum. Fjármálakerfi heimsins á eftir að aðlagast þeirri staðreynd að ríkisskuldabréf eru ekki lengur áhættulaus fjárfesting. Jafnvel bandarísk ríkisskuldabréf geta lækkað í mati sem fyrir nokkrum árum hefði þótt óhugsandi.

Mörg ríki brugðust við fjármálakreppunni með hallarekstri á ríkissjóði og héldu þannig uppi eftirspurn og komu í veg fyrir atvinnuleysi. En þegar ríkisskuldir verða of miklar verður sú leið ekki lengur fær. Oft hafa skuldug ríki leyst vandamál of mikilla skulda með verðbólgu og gengisfellingum. Fyrir ríki sem skulda í öðrum gjaldmiðlum en sínum eigin, eða í sameiginlegum gjaldmiðli eins og evru, er sú leið ekki heldur fær. Það er því sjaldnast einfalt mál að komast út úr kreppunni sama hvar hún hefur borið niður.

Samtök atvinnulífsins hafa síðan 2009 lagt höfuðáherslu á að auknar fjárfestingar í atvinnulífinu séu lykilþáttur í því að Ísland nái fyrri styrk. Meðan fjárfestingar eru í lægð er ekki von til þess að aðrir þættir skapi grunn að nýju framfaraskeiði. Ríkissjóður fjármagnar ekki nýja eftirspurnarbylgju og einkaneyslan vex takmarkað í atvinnuleysi, hjá skuldugum heimilum og án nýrra samkeppnishæfra starfa.

Samskonar vandi blasir víða við erlendis, sérstaklega þar sem eyða þarf hallarekstri ríkissjóðs. Þar er umræðan sífellt meira farin að snúast um nauðsyn hagvaxtar og atvinnu og hvað geti mest komið að gagni. Og væntanlega munu margir komast að sambærilegri niðurstöðu. Fjárfestingar, sérstaklega í útflutningsgreinum, og uppbygging alþjóðlega samkeppnishæfra starfa verða áhrifamesta uppskriftin.

Leið Íslands út úr kreppunni er á endanum spurning um atvinnulífið. Verður nægilegur metnaður og afl í atvinnulífinu til þess að fjárfesta og skapa störf? Mikill heilbrigður metnaður er til staðar í atvinnulífinu og í langflestum fyrirtækjum landsins starfar fólk sem hefur til margra ára gengið til starfa sinna með aga og heiðarleika í fyrirrúmi. Það sem á vantar er að stjórnmálamennirnir leyfi atvinnulífinu að nýta tækifærin. Ef vilji þeirra stendur í raun til þess að þjóna almenningi þarf að gera allt til að koma fjárfestingum í atvinnulífinu af stað."

Vilhjálmur Egilsson

Af vettvangi í desember 2011