Ærin verkefni

Í aðdraganda kjarasamninga lögðu aðilar vinnumarkaðarins mikla áherslu á breytt vinnubrögð. Í orði kveðnu ríkir samstaða um að í stað mikilla launahækkana verði markmiðið að tryggja aukinn kaupmátt til lengri tíma án þess að hrinda af stað nýrri verðbólguskriðu. Verðbólgan rýrir kaupgetu fólks og fyrirtækja, vextir verða hærri en ella og skuldirnar hækka.

Samningsaðilar hafa skipst á skoðunum um kjarasamninga til skamms tíma sem leggi grunn að lengri samningum þar sem betri tími gefist til undirbúnings í samstarfi við stjórnvöld. Það er eðlilegt að nokkurn tíma taki að ná niðurstöðu í þessum viðræðum, einkum ef hún felur í sér minni breytingar á launum en undanfarin ár, en það er forsenda þess að verðbólgan verði innan markmiðs Seðlabankans.

Ef gera á kjarasamninga til lengri tíma sem bæði byggi á og stuðli að stöðugleika verður ríkisstjórnin að móta efnahagsstefnu til lengri tíma sem tryggir samkeppnishæf rekstrarskilyrði fyrirtækjanna og peningamálastefnu sem tryggir stöðugt gengi krónunnar.

Verkefni ríkisstjórnarinnar eru ærin og hér verða einungis nefnd nokkur þau helstu. Ríkissjóð verður að reka með afgangi og greiða niður skuldir hans. Það er lykilþáttur til að ná verðstöðugleika og til að raunvextir geti lækkað. Þess vegna verða fjárlög ársins 2015 ekki síður mikilvæg en þau sem nú er tekist á um. Þar gefst betra tækifæri að undirbúa bætt vinnubrögð og kerfisbreytingu á mörgum sviðum. Forgangsraða verður verkefnum og draga úr útgjöldum sem ekki eru beinlínis mikilvæg.

Á árinu 2014 verður að stíga markverð skref til að afnema gjaldeyrishöftin og þar með að leiða til lykta stöðu fallinna banka og hvernig farið verður með eignir þeirra í íslenskum krónum. Það kemur sífellt betur í ljós hve skaðleg áhrif höftin hafa á efnahagslífið og samkeppnishæfni þess. Það dregur úr nýsköpun, fyrirtækin leita úr landi og innlendir sem erlendir fjárfestar eru tortryggnir og halda að sér höndum svo dæmi séu nefnd. Vandinn við gjaldeyrishöftin er að þau eru ekki sýnileg og virðast ekki hafa mikil áhrif á daglegt líf og ákvarðanir í rekstri. Höftin eru samt alltumlykjandi og vegna þeirra eru rekstrarskilyrði fyrirtækja hér á landi verri en í nálægum löndum. Smám saman leiða þau til þess lífsskilyrði verða verri hér en þau sem horft er til í nálægum löndum. Afleiðingarnar eru alveg fyrirsjáanlegar.

Það bíður mikið verkefni við að endurskoða skattkerfi atvinnulífsins. Það verður að leggja áherslu á fáa skattstofna og að undanþágur séu sem fæstar. Virðisaukaskattur og vörugjöld hafa smám saman orðið miklu flóknari en efni standa til og bjóða upp á alls kyns mismunun og óeðlilega neyslustýringu. Það verður að ná skynsamlegri niðurstöðu um skattlagningu svonefnds arðs af auðlindum þannig að sambærilegar reglur gildi hvort sem um er að ræða auðlindir sjávar eða aðrar.

Það þarf að móta stefnu í efnahagsmálum og peningamálum til lengri tíma í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og aðra hagsmunaaðila. Ákvarðanir um fjárfestingar sem ætlað er að standa til langs tíma eru teknar í ljósi trúverðugleika stefnu í efnahagsmálum. Þennan trúverðugleika hefur áþreifanlega skort undanfarin ár og skýrir að töluverðu leyti hve fjárfestingar hafa verið litlar. Með auknum stöðugleika, trúverðugri stefnu í peningamálum og batnandi hag ríkissjóðs munu fjárfestingar aukast að nýju.

Fjárfestingar eru nauðsynlegar til að framleiðni atvinnulífsins aukist. Þar með eykst verðmætasköpun í samfélaginu og hagvöxtur kemst á skrið. Þannig er lagður grunnur að aukinni atvinnu, auknum kaupmætti launa, aukinni velferð og betri lífskjörum.

Öll þessi verkefni eru nátengd og árangur næst ekki nema samstaða sé um markmiðin. Þess vegna er skynsamleg niðurstaða í kjarasamningaviðræðum svo mikilvæg.

Hvorki atvinnurekendur, launamenn né stjórnvöld ráða við verkefnin án hvers annars. Samstarf og sameiginleg framtíðarsýn er forsenda farsællar niðurstöðu.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA.

Af vettvangi í desember 2013