Vinnumarkaður - 

26. Apríl 2001

Aðildarfyrirtæki SA ráði ekki verkfallsmenn til starfa

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Aðildarfyrirtæki SA ráði ekki verkfallsmenn til starfa

Samtök atvinnulífsins hafa beint þeim eindregnu tilmælum til aðildarfyrirtækja að ráða ekki verkfallsmenn til starfa, en samkvæmt samþykktum SA er félagsmönnum óheimilt að ráða til sín launþega sem eru í verkfalli eða verkbanni. Þá eru þeir sem kunna að hafa ráðið verkfallsmenn til vinnu vegna ókunnugleika um kjaradeiluna vinsamlegast beðnir að láta þá hætta störfum.

Samtök atvinnulífsins hafa beint þeim eindregnu tilmælum til aðildarfyrirtækja að ráða ekki verkfallsmenn til starfa, en samkvæmt samþykktum SA er félagsmönnum óheimilt að ráða til sín launþega sem eru í verkfalli eða verkbanni. Þá eru þeir sem kunna að hafa ráðið verkfallsmenn til vinnu vegna ókunnugleika um kjaradeiluna vinsamlegast beðnir að láta þá hætta störfum.

Samkvæmt 47. gr. samþykkta SA um vinnustöðvanir er félagsmönnum óheimilt að ráða til sín launþega sem eru í verkfalli eða verkbanni. Fregnir hafa borist af því að sjómenn sem eru í verkfalli hafi ráðið sig til annarra starfa og hafi þannig getað aflað sér tekna í verkfallinu á sama tíma og útgerðirnar eru tekjulausar vegna verkfallsins. Samtök atvinnulífsins beina þeim eindregnu tilmælum til aðildarfyrirtækja sinna að ráða ekki verkfallsmenn til starfa og virða þannig í hvívetna 47. gr. samþykkta SA.  Þeir sem kunna að hafa ráðið verkfallsmenn til vinnu vegna ókunnugleika um kjaradeiluna, eru vinsamlegast beðnir að láta þá hætta störfum.

Yfirstandandi vinnustöðvun (verkfall og verkbann) á fiskiskipum nær til áhafna fiskiskipa sem eru 12 rúmlestir og stærri. Vinnustöðvunin nær til eftirtalinna félaga:


1. Skipstjóra og stýrimannafélaga innan Farmanna- og fiskimannasambands Íslands     (FFSÍ).
2. Vélstjórafélags Íslands (VSFÍ).
3. Félaga innan Sjómannasambands Íslands (SSÍ), að undanteknum félögum á Snæfellsnesi (öðrum en Verkalýðsfélaginu Stjörnunni í Grundarfirði og Verkalýðsfélagi Stykkishólms) og á Vestfjörðum (öðrum en Sjómannafélagi Ísfirðinga).

Verkfall og verkbann nær því til eftirtalinna stöðuheita:  Skipstjóri, stýrimaður, vélstjóri, vélavörður, matsveinn, bátsmaður, netamaður, Baader maður og háseti.

Komi upp vafaatriði um það hvort starfsmaður sem hefur verið ráðinn eftir að verkfallið hófst 15. mars 2001 sé í verkfalli er hægt að ganga úr skugga um það hjá Landsssambandi íslenskra útvegsmanna eða Samtökum atvinnulífins.

Samtök atvinnulífsins