Aðilar vinnumarkaðarins munu verja lífeyrissjóðina

Uppbygging lífeyrissjóða er eitt af því sem best hefur tekist hjá Íslendingum undanfarin ár og áratugi.  Í sjóðunum eru nú samtals rúmlega 1.800 milljarðar króna og fáar þjóðir hafa byggt upp sambærilegan sparnað til þess að standa undir lífeyrisgreiðslum í framtíðinni. Einungis Holland og Sviss eru sambærileg við Ísland en þessi þrjú ríki eiga sparnað í lífeyrissjóðum sem nemur 120-130% af landsframleiðslu en önnur ríki standa þeim langt að baki. Umhugsunarvert er að bera saman stöðu Íslands og Grikklands. Grikkland engist í djúpri kreppu meðal annars vegna ákvarðana skammsýnna og tækifærissinnaðra stjórnmálamanna fyrr á árum sem lögleiddu lífeyriskerfi á kostnað skattgreiðenda sem engin leið er að standa undir, en Grikkir eiga enga lífeyrissjóði.

Ómálefnaleg gagnrýni

Lífeyrissjóðir á vegum aðila vinnumarkaðarins hafa að undanförnu sætt mikilli ágjöf m.a. í fjölmiðlum og ýmis gamalkunnur málflutningur hefur verið viðraður á nýjan leik.  Sér í lagi hafa sjóðir á vegum Samtaka atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar orðið fyrir gagnrýni sem alltof oft hefur verið ómálaefnalegt gaspur eða beinlínis rógburður.  Lífeyrissjóðirnir þurfa vissulega að þola gagnrýni eins og allt í samfélaginu.  Því geta þeir ekki beðist undan gagnrýni og aðhaldi.  Það skiptir hins vegar miklu máli að gagnrýnin sé málefnaleg og veiti leiðbeiningar um hvert skuli halda.

Skoða verður heildarstöðuna

Lífeyrissjóðirnir hafa tapað á fjárfestingum sínum í kjölfar bankahrunsins.  Annað var nánast útilokað.  Að mati Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) var ávöxtun lífeyrissjóða neikvæð um 23% árið 2008 í aðildarríkjum þess sem er svipað og á Íslandi. Á Írlandi var neikvæð ávöxtun 40% og 33% í Bandaríkjunum. Oft gleymist að lífeyrissjóðirnir höfðu hagnast verulega á árunum á undan og þegar upp er staðið er staðan ekki svo afleit.  Uppgangur bankanna, með tilheyrandi eignabólum og fjárfestingarákvörðunum, var byggður á afar veikum grunni sem smám saman hefur komið í ljós. Lífeyrissjóðirnir störfuðu á þessum markaði eins og hverjir aðrir fjárfestar.  Þeir voru þolendur en ekki gerendur.  Aðrir fjárfestar og lánveitendur bæði erlendir og innlendir töpuðu þúsundum milljarða króna á bankahruninu.  Lífeyrissjóðirnir eiga það sameiginlegt með helstu bönkum og fjármálafyrirtækjum heimsins að hafa tapað á íslensku bönkunum sem á tímabili voru taldir meðal bestu fjárfestingarkosta í víðri veröld og mærðir mjög.

Mistök lífeyrissjóðanna

Þegar rætt er um mistök lífeyrissjóðanna verður að ræða um það sem mistök þolenda en ekki gerenda.  Mestu mistök lífeyrissjóðanna almennt hafa líklega verið að láta undan sífelldri gagnrýni á háan rekstrarkostnað sem leiddi til þess að eignastýringadeildir sjóðanna voru ekki efldar nægilega.  Sterkari eignastýringadeildir og meiri vinna við greiningu á einstökum fjárfestingarkostum hefði leitt til gagnrýnni og sjálfstæðari ákvarðana.  Sérstaklega á þetta við um fjárfestingu í skuldabréfum og greiningu á þeim.  Hjarðhegðun varð of mikil á markaðnum þar sem hver og einn reiknar með því að aðrir hafi skoðað hlutina og tekið vandaðar ákvarðanir.  Það er svo eftir öðru að þeir sem áður gagnrýndu sjóðina fyrir of háan rekstrarkostnað og kostnað við eignastýringu skuli nú vera fremstir í flokki þeirra sem gagnrýna sjóðina vegna tapaðra fjárfestinga.

Ábyrg stjórnun

Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfingin standa af fullri ábyrgð að stjórn lífeyrissjóða á þeirra vegum.  Þess vegna víkja stjórnir sjóðanna sér ekki undan sársaukafullum skerðingum á réttindum þegar fjárfestingar sjóðanna ganga ekki vel eða aðrar hremmingar verða.  Fyrir þessa sjóði er ekki möguleiki í stöðunni að safna upp yfir 500 milljarða tryggingafræðilegum halla eins og þeir sjóðir sem stjórnmálamenn okkar bera ábyrgð á og hafa gert í gegnum tíðina.  Engin útleið í stöðunni fyrir almennu sjóðina er að stjórnmálamenn taki við þeim, það er  einungis ávísun á gríska ástandið. 

Þá er heldur engin lausn á núverandi vanda að taka upp svokallað sjóðfélagalýðræði.  Nokkrir slíkir sjóðir starfa hér á landi og hafa ekki sýnt betri árangur í fjárfestingum, ekki ástundað betri stjórnarhætti og um starfsemi þeirra sjóða hefur alls ekki verið minni ófriður.  Þvert á móti. Veikleikinn við slíkt fyrirkomulag, ef það yrði almennt,  er fyrst og fremst takmarkaðir þróunarmöguleikar og veik forysta í samskiptum við stjórnmálamenn.  Mikil hætta yrði á því að litlir en velskipulagðir hópar, hugsanlega með þrönga sérhagsmuni að leiðarljósi, myndu taka sjóðina yfir þar sem þátttaka í kosningum til stjórna yrði afar lítil. Fljótlega yrði ríkið alls ráðandi í þróun lífeyrismála með fyrirsjáanlegu ábyrgðarleysi og afleiðingum. Líklegasta þróunin yrði fráhvarf frá sjóðssöfnun í átt til gegnumstreymis með skelfilegum afleiðingum fyrir lífeyrisþega.

Iðgjöld til almennra lífeyrissjóða undir forystu aðila vinnumarkaðarins hafa verið hækkuð í kjarasamningum til þess að mæta lengri ævilíkum lífeyrisþega og fjölgun öryrkja. Svigrúmi til launahækkana í kjarasamningum hefur verið varið til þess að búa í haginn fyrir lífeyrisþega framtíðarinnar, bæði með auknum framlögum atvinnulífsins í sameign og séreign, og skattbyrði framtíðar kynslóða þannig verið stillt í hóf. Breytt hefur verið úr jafnri í aldurstengda réttindaávinnslu til þess að mæta breyttri aldurssamsetningu sjóðfélaga. Sjóðirnir hafa sett sér reglur um starfshætti og siðareglur.

Samkvæmt reglugerð um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða skal nota 3,5% vaxtaviðmiðun umfram vísitölu neysluverðs við núvirðisreikning væntanlegs lífeyris og framtíðariðgjalda. Lífeyrissjóðir þurfa því að ávaxta fjármuni þá sem þeir hafa til ráðstöfunar umfram þessi mörk ef ekki á að koma til skerðingar á réttindum. Lífeyrissjóðunum er einnig með lögum gert skylt að fjárfesta innanlands a.m.k. helming hreinnar eignar sinnar. Með gjaldeyrishöftum er þeim nú skylt að verja öllu ráðstöfunarfé sínu til fjárfestinga innanlands, en þeir kostir sem í boði eru standa tæpast undir kröfunni  um 3,5% vexti sem gerir þeim erfitt fyrir.

Áratuga farsæl uppbygging

Almenna lífeyrissjóðakerfið byggir á því að hægt sé að velja um til hvaða lífeyrissjóðs er greitt.  Þannig getur fólk í grunninn ákveðið hvort það vill vera í einum sjóði fremur en öðrum.  Síðan er þar til viðbótar heimild til þess að gera kjarasamninga sem kveða á um greiðslu í tiltekinn lífeyrissjóð enda er almennt samningsfrelsi í landinu.  Í gegnum tíðina hefur verið góð samstaða um það milli aðila almenna vinnumarkaðarins að gera þannig kjarasamninga enda hefur hinn ábyrgi hluti lífeyriskerfisins verið þróaður meira og minna á þeim forsendum á síðustu 40 árum.  Fjölmargir einstaklingar velja svo að greiða til lífeyrissjóða á vegum aðila vinnumarkaðarins án þess að vera skyldugir til þess. Lífeyrissjóðakerfi opinberra starfsmanna er sérstakt mál þar sem ábyrgðarleysið hefur gengið allt of langt.

Óábyrgu tali um óheyrilegt sukk og óráðsíu, spillingu og annað slíkt innan lífeyrissjóða á ábyrgð aðila vinnumarkaðarins er vísað á bug.  Ég leyfi mér að fullyrða að enginn þeirra sem nú situr í stjórn lífeyrissjóðs á vegum Samtaka atvinnulífsins hefur sem stjórnarmaður í lífeyrissjóði þegið boðsferðir eða þess háttar gjafir frá viðskiptaaðilum sjóðanna.

Vilhálmur Egilsson.

Greinin birtist í styttri útgáfu í Fréttablaðinu í dag 6. maí 2010.