Aðalfundur SVÞ 2010: Spilum saman

Aðalfundur SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu fór fram fimmtudaginn 11. mars undir yfirskriftinni Spilum saman. Fundurinn markaði upphaf Viku verslunar og þjónustu sem nú stendur yfir en markmiðið með henni er að vekja athygli á mikilvægi verslunar og þjónustu, atvinnugreinar þar sem um fjórði hver Íslendingur starfar. Jafnframt að hvetja Íslendinga á jákvæðan og ábyrgan hátt til að "spila með" og taka þátt í að snúa hjólum atvinnulífsins með því að eiga viðskipti við verslunar- og þjónustufyrirtæki. Margrét Kristmannsdóttir var endurkjörinn formaður SVÞ en hún gagnrýndi í ræðu sinni bæði stjórn og stjórnarandstöðu harðlega fyrir framtaksleysi.

Margrét hvatti fólk til að breyta hlutunum til betri vegar og spýta í lófana. "Ég vil sjá okkur öll - ríkisstjórnarflokkana, stjórnarandstöðuna, aðila vinnumarkaðarins miklu lausnamiðaðri á komandi vikum og mánuðum - leggja til hliðar óþarfa karp því mikilvægast er að koma hreyfingu á hlutina. Það eitt skiptir máli enda hef ég sagt það áður að núverandi kyrrstaða og neikvæð umræða er að gera þjóðina andlega þunglynda."

Margrét kom víða við í ræðu sinni og ræddi m.a. um stöðu atvinnulífsins og ímynd. Sagði hún íslenska atvinnurekendur upp til hópa heiðarlegt og harðduglegt fólk sem vaki yfir fyrirtækjum sínum frá morgni til kvölds allt árið um kring. Þeir séu þó ekki gallalausir og geri mistök eins og aðrir. "Íslenskir atvinnurekendur eiga nú sem aldrei fyrr að rétta úr bakinu og bera höfuðið hátt og vera stoltir af fyrirtækjum sínum sem veita um 110.000 manns atvinnu - flestir við ytri skilyrði sem eiga fáa sína líka. Það verður hins vegar að tryggja með öllum ráðum að svipað hrun geti aldrei átt sér stað aftur - og verður atvinnulífið að styðja löggjafann með öflugum hætti í þeirri vegferð." Þá hvatti Margrét stjórnendur bankana til dáða og sagði betra að þeir taki 100 ákvarðanir og geri fáein mistök en að þeir taki alls engar ákvarðanir.

Þá vék Margrét í ræðu sinni að einkarekinni heilbrigðisþjónustu:

"Ég get ekki endað mál mitt án þess að minnast sérstaklega á einkarekna heilbrigðisþjónustu - sem að miklu leyti er innan okkar raða. Þetta er að stærstum hluta sú heilbrigðisþjónusta sem rekin er utan stóru spítalanna - heilbrigðisþjónusta sem við flest sækjum oft á ári enda fær einkarekin heilbrigðisþjónusta um 480.000 komur á hverju ári og þar eru framkvæmdar um 16.000 skurðaðgerðir. Í dag er þessi hluti um 4% af heilbrigðisútgjöldum hins opinbera og er t.d. mun lægri en í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Í Noregi er þessi hlutur 18%, í Svíþjóð 20% og í Danmörku 25% Um þessar mundir er verulega vegið að þessum þætti í heilbrigðisþjónustunni og eru gerðar miklu meiri kröfur um niðurskurð hjá þessum einkareknu aðilum en inni á opinberu stofnunum. Er reiknað með að niðurskurðarkrafan sé rúm 30% hjá einkageiranum á meðan hann er um 5-7% hjá hinu opinbera.

Þetta væri kannski í lagi ef þetta væri skynsamleg leið - en staðreyndir tala allt öðru máli. Einkareknu stofurnar eru að sinna sínum hluta heilbrigðiskerfisins á mun ódýrari hátt en gert er inni á spítölunum og það á að skipta okkur skattgreiðendur máli. Í úttekt sem OECD gerði hér á landi fyrir 2 árum var niðurstaðan sú að íslenskt heilbrigðiskerfi væri mjög gott - en of dýrt. Mat stofnunin það svo, að veita mætti ámóta þjónustu þó að kostnaðurinn væri skorinn niður um allt að 40% Og munar um minna!

Hins vegar stýrir nú heilbrigðisráðuneytinu ráðherra sem lýsti því nýlega yfir á Alþingi að hann væri á móti einkarekinni heilbrigðisþjónustu - en virðist með þeim orðum vera að misskilja út á hvað einkarekin heilbrigðisþjónusta gengur. Með einkarekinni heilbrigðisþjónustu er ekki stefnt að stéttarskiptri heilbrigðisþjónustu eins og við t.d. þekkjum frá Bandaríkjunum - þar sem efnameiri einstaklingar geta keypt sér betri heilsu en þeir efnaminni. Því þrátt fyrir ólíkar stjórnmálaskoðanir munum við Íslendingar seint sætta okkur við annað en að allir hafi jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu og menntakerfi óháð efnahag.

Einkarekin heilbrigðisþjónusta gengur einfaldlega út á það að hið opinbera kaupi heilbrigðisþjónustuna af þeim aðilum sem geta gert hana á hagkvæmasta og ódýrasta háttinn. Ef ódýrara er að framkvæma t.d. ýmsar speglanir eða skurðaðgerðir á einkareknu stofum í staðinn fyrir að gera það inn á dýru hátæknisjúkrahúsi eiga þessar aðgerðir að fara fram á einkareknu stofunum. Að segjast vera á móti einkarekinni heilbrigðisþjónustu eða öðrum einkarekstri er misskilin hugmyndafræði. En sýnir kannski ekki síður mikla vanvirðingu fyrir því skattfé sem ráðherra er falið."

Ítarlega umfjöllun um aðalfund SVÞ má nálgast á vef samtakanna.

Sjá nánar á vef SVÞ:


Ræða formanns SVÞ (PDF)

Umfjöllun og gögn frá fundi SVÞ