Aðalfundur Samorku: Ný gjaldtaka og styttri leigutími auðlinda þýðir hærra orkuverð

Í ályktun aðalfundar Samorku sem fram fór í dag er áhersla lögð á mikilvægi arðsemi við nýtingu orkuauðlinda. Þá minna samtökin á að ný gjaldtaka, hvort sem er í formi auðlindagjalds eða skatta, skapar ekki ný verðmæti. Aukin gjaldtaka leiði til hærra orkuverðs og sama gildi um mikla styttingu leigutíma orkuauðlinda. Þá vara samtökin við öllum áformum stjórnvalda um að "vinda ofan af" löglega gerðum samningum við einkaaðila á sviði orkunýtingar, sem og við hugmyndum um að færa auðlindastýringu og -rannsóknir undir umhverfisráðuneytið.

Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, var kjörinn formaður samtakanna á aðalfundinum í dag. Tryggvi tekur við af Franz Árnasyni, forstjóra Norðurorku, sem gegnt hefur formennsku í Samorku undanfarin fjögur ár. Þá var Bjarni Bjarnason, sem senn tekur við starfi forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, kjörinn nýr í stjórnina.

Ályktun aðalfundar Samorku 18. febrúar 2011 má lesa í heild hér að neðan:

Ný gjaldtaka og styttri leigutími auðlinda þýðir hærra orkuverð

Íslenska þjóðin býr að gríðarlegum auðlindum þar sem eru hreint neysluvatn, vatnsafl og jarðvarmi. Þessum auðlindum fylgja mikil tækifæri til verðmætasköpunar og bættra lífskjara. Auðlindirnar eru þó takmarkaðar og afar mikilvægt að áhersla sé lögð á góða arðsemi við nýtingu þeirra, með sjálfbærum hætti og í góðri sátt við umhverfið.

Stjórnvöld áforma nú aukna gjaldtöku af nýtingu orkuauðlinda. Samorka minnir á að ný gjaldtaka skapar ekki ný verðmæti. Arður almennings af orkuauðlindunum hefur ekki síst verið fólginn í mun lægri orkuverðum og neysluvatnskostnaði en gerist í nágrannalöndum okkar. Aukin gjaldtaka sem lögð er, eftir atvikum á raforku, heitt vatn og neysluvatn, hvort sem er í formi auðlindagjalds eða skatta, leiðir til hærra verðs jafnt til heimila sem atvinnulífs.

Sama gildir um hugmyndir um mikla styttingu leigutíma orkuauðlinda. Slík stytting leiðir til hærri ávöxtunarkröfu samfara styttri afskriftartíma og með tímanum til hærra orkuverðs á Íslandi, jafnt til heimila sem atvinnulífs. Enginn hefur meiri hagsmuni af sjálfbærri nýtingu orkuauðlindanna en orkufyrirtækin sem þær nýta. Uppbygging jarðhitavirkjana er þess vegna gjarnan í þrepum sem fara samhliða bættri þekkingu á jarðhitasvæðinu og getur tekið nokkra áratugi. Stuttur leigutími gengur því gegn eðlilegum forsendum sjálfbærni í jarðhitanýtingu.

Standa verður við gerða samninga
Samorka varar við öllum áformum stjórnvalda um að "vinda ofan af" löglega gerðum samningum við einkaaðila á sviði orkunýtingar. Hætt er við að slíkir gjörningar hafi verulega neikvæð áhrif á áhuga fjárfesta í íslensku atvinnulífi. Minnt er á að orkuauðlindir í opinberri eigu má ekki framselja einkaaðilum, lögum samkvæmt.

Gegn tilfærslu rannsókna og auðlindastýringar til umhverfisráðuneytis
Loks varar Samorka við hugmyndum um að færa auðlindarannsóknir og auðlindastýringu undir umhverfisráðuneytið. Það væri að mati Samorku óeðlileg stjórnsýsla að sami ráðherra gegndi lykilhlutverki varðandi rannsóknir og nýtingu annars vegar, og færi með umhverfismat og skipulagsmál hins vegar.

Nánari umfjöllun um aðalfundinn má finna á vef Samorku: www.samorka.is.