Aðalfundur SA föstudaginn 18. apríl í Hafnarhúsinu

Aðalfundur Samtaka atvinnulífsins verður haldinn föstudaginn 18. apríl síðdegis. Fundurinn að þessu sinni  fer fram í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsinu. Dagskrá verður auglýst þegar nær dregur en segja má að aðalfundur SA haldi nú á fornar slóðir en hann fór um árabil fram í miðborg Reykjavíkur undir merkjum forvera SA - VSÍ. Um og upp úr miðri síðustu öld var aðalfundur VSÍ t.a.m. haldinn í Kaupþingssalnum í Eimskipafélagshúsinu sem nú hýsir fjögurra stjörnu Radisson SAS hótel. Um tíma var fundurinn haldinn í húsnæði VSÍ í Garðastræti þar sem skrifstofur SA voru - áður en Hús atvinnulífsins var tekið í notkun - en fulltrúar kínverskra stjórnvalda halda nú til í Garðastrætinu. Fundurinn stóð í tvo heila daga hér áður fyrr en rétt er að halda því til haga að dagskrá aðalfundar SA þetta árið verður nær tveimur klukkutímum en tveimur dögum.

Opnað verður fyrir skráningu á fundinn um leið og dagskrá verður kynnt. 

Aðalfundur VSÍ 1962

Frá aðalfundi VSÍ 1962 í Kaupþingssalnum í Eimskipafélagshúsinu. Í fremstu röð má m.a. sjá  hárgreiðslumeistara en fyrstu áratugi VSÍ voru þeir áberandi fulltrúar kvenna í atvinnulífinu innan VSÍ.

SA hvetja félagsmenn og aðra áhugasama til að taka frá seinnipart föstudagsins 18. apríl og vonast til að sjá sem flesta í Hafnarhúsinu.