Aðalfundur LÍÚ: Stjórnvöld endurskoði lög um veiðigjöld

Aðalfundur LÍÚ samþykkti samhljóða ályktun þar sem skorað er á stjórnvöld að beita sér fyrir endurskoðun laga um veiðigjöld nr. 74/2012. Ályktunin er svohljóðandi: Aðalfundur LÍÚ haldinn í Reykjavík 25. og 26. október 2012 skorar á stjórnvöld að beita sér fyrir endurskoðun laga um veiðigjöld nr. 74/2012. Þessi ofurskattlagning í formi veiðigjalda mun draga allan mátt úr greininni, en ljóst er að mörg fyrirtæki munu ekki standa undir þeim gríðarlegu álögum sem stjórnvöld hafa lagt á. Þar fara þau fyrirtæki sem eingöngu stunda útgerð verst út úr skattlagningunni.

Gjaldið er lagt á fyrirtækin miðað við metna meðaltalsafkomu sjávarútvegsins í heild þrátt fyrir mjög ólíka stöðu og aðstöðu þeirra. Miðað er við þorskígildisstuðla þar sem ekkert tillit er tekið til mismunandi kostnaðar við veiðar einstakra tegunda. Skattlagningin nemur í mörgum tilvikum meiru en öllum hagnaði einstakra fyrirækja. Aðferðin til að meta hagnaðinn er ófullnægjandi þar sem ekki er tekið nægjanlegt tillit til þess fjármagns sem bundið er í rekstri fyrirtækja. Ekkert tillit er tekið til þeirra verðmæta sem liggur í veiðiheimildum fyrirtækjanna við mat á skattstofninum en bókfært virði þeirra er um 200 milljarðar.

Ekki er látið staðar numið við útgerðina heldur er afkoma fiskvinnslunnar einnig skattlögð. Hámarkinu er svo náð með því að láta þá sem eingöngu stunda útgerð greiða sérstakan skatt vegna afkomu þeirra sem kaupa af þeim fiskinn.

Fjárfesting og þróunarstarf mun dragast saman, verðmætasköpun minnkar og fyrirtæki sem byggja afkomu og rekstur sinn á starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja veikjast. Á endanum minnka skatttekjur ríkisins.

Hér er um sannkallaðan landsbyggðarskatt að ræða þar sem meginstarfsemi sjávarútvegsins er utan höfuðborgarsvæðisins. Það hefur gleymst að forsenda þess árangurs sem íslenskur sjávarútvegur hefur náð er að þeir sem nú stunda útgerð og fiskvinnslu fóru í nauðsynlega hagræðingu með kaupum á aflaheimildum og fækkun skipa og vinnslustöðva.

Aðrar ályktanir sem samþykktar var á fundinum má nálgast hér.

Ítarlega er fjallað um fundinn á vef LÍÚ - sjá hér að neðan:

Íslenskur sjávarútvegur skilar mun meira verðmæti en sá norski

LÍÚ styrkir Slysavarnarfélagið Landsbjörgu


Kröftum eytt í baráttu við stjórnvöld í stað sóknar fyrir íslenskan sjávarútveg