Aðalfundur LÍÚ: Hugmynd sjávarútvegsráðherra um að taka fyrirhugaða aukningu aflaheimilda af útgerðum og selja þær öðrum harðlega mótmælt

Aðalfundur LÍÚ fór fram í Reykjavík dagana 28. og 29. október 2010. Í einni af tillögum fundarins, sem var samþykkt samhljóða, mótmæla samtökin harðlega hugmynd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að taka fyrirhugaða aukningu aflaheimilda í þorski, ýsu, gullkarfa, ufsa og síld af útgerðum og selja þær öðrum. Formaður LÍU, Adolf Guðmundsson, sagði m.a. í ávarpi sínu á fundinum að árangri og orðspori okkar megi ekki kasta fyrir róða með upptöku og uppboði aflaheimilda.

"Íslenskur sjávarútvegur er vel skipulagður, hátæknivæddur þekkingariðnaður þar sem fjölmargir aðilar leggja hönd á plóg, bæði beint og óbeint. Við eigum í harðri samkeppni á alþjóðavettvangi um sölu sjávarafurða og alla daga eru þúsundir manna og kvenna að vinna frábært starf í íslenskum sjávarútvegi og tengdum greinum," sagði Adolf m.a. á fundinum.

Formaður LÍÚ ræddi m.a. um neikvæða umræðu um sjávarútveginn og samskipti við stjórnvöld. "Allt frá því núverandi ríkisstjórn komst til valda hefur mikilvægasta verkefni okkar  falist í því að berjast gegn illa ígrunduðum og óraunhæfum hugmyndum stjórnvalda. Hugmyndum um upptöku og uppboð á aflaheimildum samkvæmt svokallaðri fyrningarleið sem settar voru fram án nokkurs mats á afleiðingum þeirra."

Adolf sagði í ræðu sinni sjávarútveginn mikilvægan fyrir Íslendinga um þessar mundir og að svo yrði áfram. Því væri nauðsynlegt að hér væri stundaður sjálfbær sjávarútvegur sem skilaði öllum arði. "Það er hinsvegar ekkert sjálfgefið að svo sé og þannig hefur það ekki alltaf verið,"  bætti hann við.

Undir lokin sagði formaður LÍÚ um sjálfbærar og ábyrgar fiskveiðar: "Aðferð okkar hefur verið sú að setja ábyrgðina á atvinnugreinina sjálfa. Mikil verðmæti liggja í aflaheimildum fyrirtækjanna enda leggja þær grunninn að rekstrarhæfi þeirra. Það er því hagur þeirra að nýta fiskistofnana á sjálfbæran hátt til langs tíma. Það er vegna þessa sem íslenskir útvegsmenn hafa lengi verið talsmenn sjálfbærra og ábyrgra fiskveiða og verið tilbúnir til að draga úr veiðum ef ástand fiskistofnanna versnar.  Þegar menn vita að þeir uppskera þegar ástandið batnar eru þeir viljugir til að taka á sig tímabundnar skerðingar. Árangri og orðspori okkar má ekki kasta fyrir róða með upptöku og uppboði aflaheimildanna. Hlutverk okkar er að koma í veg fyrir það."

Ítarlega er fjallað um fundinn á vef LÍU, þar má m.a. lesa allar ályktanir fundarins og lesa í heild ræðu Adolfs Guðmundssonar, formanns LÍU.

Ályktanir aðalfundar LÍÚ 2010

Ræða formanns LÍU á aðalfundi 2010