Ábyrgt fjárlagafrumvarp - ályktun stjórnar SA
8. október 2002
Ábyrgt fjárlagafrumvarp
ályktun stjórnar Samtaka atvinnulífsins
Samtök atvinnulífsins lýsa ánægju sinni með þá ábyrgu
ríkisfjármálastefnu sem boðuð er með fjárlagafrumvarpi
ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2003. Frumvarpið einkennist fremur af
langtímahugsun en þeirri staðreynd að kosið er til Alþingis á næsta
ári, sem m.a. lýsir sér vel í myndarlegu framlagi til að laga
skuldastöðu lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna. Ráðgerður ellefu
milljarða króna afgangur er mjög viðunandi árangur í núverandi
árferði. Stöðugleiki er nú aftur að nást í íslensku efnahagslífi og
aðhaldssemi í opinberum útgjöldum er mikilvæg forsenda þess að hann
haldist.
Áhersla á mikilvægi ábyrgðar í meðförum
þingsins
Verði af fyrirhuguðum stóriðjuframkvæmdum hafa forsendur
frumvarpsins breyst nokkuð og eykst þá enn mikilvægi aðhaldssemi í
fjármálum hins opinbera, til þess að sporna gegn hugsanlegum
þensluáhrifum framkvæmdanna. Samtök atvinnulífsins leggja því
áherslu á mikilvægi þess að útgjaldaáætlunin vaxi ekki í meðförum
Alþingis, og að þeirri langtímahugsun sem einkennir frumvarpið
verði ekki fórnað.
Horft til heilbrigðiskerfisins
Ljóst er að helstu veikleikar fjárlagafrumvarpsins eru sem
fyrr í heilbrigðiskerfinu. Finna þarf haldbærar skýringar á
endurtekinni framúrkeyrslu á því sviði og hvetja Samtök
atvinnulífsins ríkisstjórnina til þess að leita allra leiða til að
koma böndum á útgjaldaþenslu kerfisins. Frekari útboð
þjónustuverkefna hljóta að koma til greina í því sambandi.
Framhald einkavæðingar
Samtök atvinnulífsins lýsa sérstakri ánægju með að
hreyfing virðist á ný komin á framkvæmd einkavæðingar
ríkisfyrirtækja, með viðræðum við hugsanlega kjölfestufjárfesta í
ríkisbönkunum. Það er löngu tímabært að þeim kafla
einkavæðingarsögunnar ljúki og hér komist á sambærilegt
fyrirkomulag á fjármálamarkaði við það sem ríkir í nágrannalöndum
okkar. Með einkavæðingu er stuðlað að virkari samkeppni og aukinni
framleiðni í efnahagslífinu, sem aftur rennir styrkari stoðum undir
batnandi lífskjör í landinu.