Ábyrgt fjárlagafrumvarp

Miðað við aðstæður í efnahagslífinu, engan hagvöxt á yfirstandandi ári og horfur, að óbreyttu, um lítinn vöxt á næsta ári, er það fjárlagafrumvarp sem nú er lagt fram fremur aðhaldssamt og einkennist fremur af langtímahugsun en þeirri staðreynd að á næsta ári eru kosningar til Alþingis. Fjármálaráðherra á því hrós skilið fyrir það. Hafa verður þó í huga að efnahagsforsendur frumvarpsins geta breyst nokkuð ef af fyrirhuguðum stóriðjuframkvæmdum verður.  Ef þær verða að veruleika munu kröfur aukast um aðhaldssemi og afgang af rekstri hins opinbera.

Fjárlagafrumvarpið er nú lagt fram með tæplega 11 milljarða króna afgangi. Að vísu er stærstur hluti þess afgangs áætlaður hagnaður af sölu ríkisfyrirtækja en á móti kemur að svipaðri fjárhæð og söluhagnaðinum nemur er varið til að styrkja fjárhag lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna. Rekstrarafgangur á næsta ári, að frátöldum þessum óreglulegu liðum, er um 10 milljarður króna sem er svipuð upphæð og áætlaður tekjuaafgangur þessa árs, án þessara óreglulegu gjalda og tekna. 

Krafa á þingheim
Undanfarin ár og áratugi hefur það nánast verið regla að gjöld hafa hækkað frá frumvarpi til fjárlaga. Fjárlög fyrir þetta ár voru undantekning frá þeirri reglu. Gjöld í fjárlagafrumvarpi 2002 voru 239,3 milljarðar króna en 239,4 milljarðar í fjárlögum 2002. Heildarniðurstaðan varð því sú sama og gera verður þá kröfu til þingheims að sú verði aftur raunin í ár. Á liðnu ári varð þó breyting á innbyrðis skiptingu ráðuneyta sem voru þær helstar að gjöld menntamálaráðuneytisins jukust um 500 m.kr., heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins um 1.200 m.kr. en gjöld fjármálaráðuneytisins voru lækkuðu um tæpar 1.800 m.kr.

Veikleikarnir í heilbrigðis- og tryggingamálum
Áætlanir fyrir þetta ár benda til þess að gjöldin fari 7,1 milljarð króna fram úr fjárlögum. Af umræðum að dæma og af boðuðum hækkunum í fjáraukalögum virðist heilbrigðiskerfið standa fyrir meginhluta framúrkeyrslunnar. Ljóst er að veikleikar fjárlagafrumvarpsins nú, sem fyrr, eru í ráðuneyti heilbrigðis- og tryggingamála. Á sviði heilbrigðismála liggur vandinn í þenslu í launaútgjöldum til heilbrigðisstétta, gríðarlegum hækkunum á greiðslum til sérfræðinga og á lyfjakostnaði. Á sviði almannatrygginga virðist þurfa að gera ráð fyrir umtalsverðri hækkun bóta vegna væntanlegs samkomulags við félög eldri borgara.

Eins og áður segir varð ekki aukning á útgjöldum fjárlagafrumvarpsins í meðförum þingsins á liðnu ári, en frumvarpið nú gerir ráð fyrir 6% aukningu gjalda milli ára. Þar sem verðbólga milli ára er áætluð rúm 2% nemur raunaukningin 3,5-4%. Það eru einkum fjögur ráðuneyti sem standa að baki raunaukningunni en það eru félagsmálaráðuneytið með 15% aukningu (feðraorlof vegur þungt), iðnaðarráðuneytið 13% (m.a. vegna byggðamála og landgrunnsrannsókna), samgönguráðuneytið 10% (jarðgöng) og heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið með 8% aukningu frá fjárlögum 2002. Í krónum talið er aukningin mest hjá fjárfrekasta ráðuneytinu, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, eða 6,4 milljarðar króna. 

Samanburður erfiður vegna breyttra skilgreininga
Breyttar skilgreiningar valda því að í fljótu bragði er erfitt að fá mynd af því hvað launagreiðslur eða tilfærslur í heild hækka í raun skv. frumvarpinu. Einungis eru sýndar tölur um laun og tilfærslur með mismunandi skilgreiningum eftir árum. Hringl með skilgreiningar, eins og nú hefur átt sér stað, er ekki til þess fallið að stuðla að upplýstri umræðu sem af þessu tilefni hættir til þess að snúast um bókhaldsaðferðir.

Umsvif heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins eiga að nema 11,9% af landsframleiðslu á næsta ári skv. fjárlagafrumvarpinu. Þetta er aukning um 0,5% frá gjöldum í síðasta ríkisreikningi, fyrir árið 2001. Þetta er aukning sem nemur fjórum milljörðum króna á verðlagi næsta árs. 

Hægir á vexti samneyslunnar
Svo virðist sem hægt hafi á aukningu hlutar samneyslu í þjóðarbúskapnum.  Hluturinn er 24% sem er mjög hátt í alþjóðlegu samhengi. Fjárlagafrumvarpið stefnir að óbreyttu hlutfalli á næsta ári sem telja má metnaðarfullt markmið. Til þess að það takist verður  að hemja vöxtinn í heilbrigðiskerfinu. 

Hannes G. Sigurðsson