Ábyrgð vinnuveitenda á öryggi og heilsu

Í væntanlegu frumvarpi til breytinga á

vinnuverndarlögunum er gert ráð fyrir

skriflegu mati atvinnurekenda á öllum

þáttum í vinnuumhverfinu sem geta

skapað áhættu fyrir öryggi og heilsu

starfsmanna. Slíkar reglur gilda þegar

um réttindi barnshafandi kvenna og

kvenna sem nýlega hafa alið börn eða

eru með börn á brjósti.

Samkvæmt vinnuverndarreglum ESB skal vinnuveitandi meta vinnuumhverfi starfsmanna með tilliti til þeirrar hættu sem öryggi þeirra og heilsu kann að vera búin, sbr. tilskipun nr. 89/391/EBE um lögleiðingu ráðstafana er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustöðum og 92/85/EBE um lögleiðingu ráðstafana til að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega alið börn eða hafa börn á brjósti.

Þessar reglur eru nú teknar upp í löggjöf hér á landi.  Annars vegar með reglugerð um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti.  Hins vegar með væntanlegu frumvarpi til breytinga á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi  á vinnustöðum.  Þar er lagt til að atvinnurekandi skuli gera skriflegt mat á öllum þáttum í vinnuumhverfinu sem geta skapað áhættu fyrir öryggi og heilsu starfsmanna.  

Áhættumat skal gert að frumkvæði og á ábyrgð vinnuveitanda.  Krefjist matið sérþekkingar sem fyrirtækið hefur ekki yfir að ráða er gert ráð fyrir að leitað sé aðstoðar til þess hæfra aðila.  Fyrirtækið getur líka falið þjónustuaðila á sviði vinnuverndar og forvarna að framkvæma matið.  

Í reglugerð 931/2000 um þungaðar konur og konur sem nýlega hafa alið barn eða hafa barn á brjósti kemur m.a. fram að þegar störf geti haft í för með sér hættu sakir mengunar, vinnuaðferða eða vinnuskilyrða, sbr. skrá yfir helstu skaðvalda, skuli atvinnurekandi meta eðli hættunnar fyrir þær konur sem falla undir reglugerðina. Hann á því að gera - eða láta gera - áhættumat. Leiði matið í ljós að hætta geti verið á ferðum ber atvinnurekanda að grípa til ráðstafana til að tryggja öryggi konunnar með  því að:

a) Breyta tímabundið vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma konunnar. Slíkar breytingar skulu ekki hafa áhrif á launakjör hennar.


 

b) Ef það er ekki hægt á að fela konunni önnur verkefni.

c) Ef það er heldur ekki hægt skal veita henni leyfi frá störfum þann tíma sem nauðsynlegt er. Konan á þá rétt á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði.

Niðurstöður áhættumats skulu án tafar kynntar fyrir konunni.

Reglugerðina er að finna á heimasíðu Vinnueftirlitsins (pdf-snið).

Vinnueftirlitið hefur jafnframt gefið út sérstakar leiðbeiningar um framkvæmd áhættumatsins sem atvinnurekendum er ætlað að styðjast við.