90 mínútur: Ávarp formanns Samtaka atvinnulífsins

Leiðtogar stjórnmálaflokkanna verða að skapa trúverðuga leið fram á við þar sem öflugt atvinnulíf er grunnur að því að bæta lífskjör í landinu. Um þá sýn verður að ríkja samstaða, það er ekkert svigrúm fyrir flokkspólitískar deilur. Þetta sagði Björgólfur Jóhannson, formaður SA, m.a. við upphaf opins umræðufundar SA um hvernig stjórnmálaflokkarnir ætla að örva atvinnulífið á nýju kjörtímabili.

"Málið snýst um atvinnupólitík. Atvinnupólitík sem felur í sér stöðugleika, samkeppnishæft rekstrarumhverfi, skynsamlega skattastefnu, áherslu á fjárfestingar og afnám gjaldeyrishaftanna," sagði Björgólfur og lagði áherslu á að SA væru reiðubúin til samstarfs og vilji leggja sitt af mörkum.

Björgólfur Jóhannsson, formaður SA.

Erindi Björgólfs má lesa í heild hér að neðan en upptökur af umræðunum verða birtar á vef SA síðar í dag ásamt umfjöllin um fundinn.

Um 250 manns mættu til fundarins og fylgdust með líflegum umræðum undir stjórn Orrra Haukssonar framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins.

Frá 90 mínútum í Hörpu

Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar, Bjarni Benediktsson Sjálfstæðisflokksins, Guðmundur Steingrímsson formaður Bjartrar framtíðar, Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri Grænna og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins tóku þátt í umræðunum.

Ávarp Björgólfs Jóhannssonar, formanns SA

Félagar, góðir gestir

Ég býð ykkur velkomin til þessa fundar. Við höfum fengið formenn nokkurra stjórnmálaflokka til að ræða um þau mál sem brenna á forsvarsmönnum fyrirtækja um þessar mundir. Við höfum áhuga á að heyra það sem þau hafa að segja um helstu hagsmunamál atvinnulífsins og um leið þjóðarinnar allrar. Og við leggjum áherslu á að þau horfi til framtíðar. Þótt mikilvægt sé að gera upp við það sem misfarist hefur og leiðrétta augljósar misfellur þá má það ekki skyggja á það sem mikilvægast er, þegar horft er fram á veginn.

Lífskjör almennings ráðast í bráð og lengd af því hversu öflugt atvinnulíf er í landinu. Eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálamanna að loknum kosningum er að búa fyrirtækjunum þannig skilyrði að þau geti sótt fram, fjárfest, skapað nýja þjónustu, þróað nýjar vörur, ráðið til sín fleira fólk og að kaupmáttur launa geti aukist.

Það er ekki eftir neinu að bíða.

Fyrirtækin vonast eftir því að verðbólga verði lág og að hér ríki stöðugleiki. Þau vonast til þess að þeim verði búið rekstrarumhverfi sem jafnast á við það sem best gerist. Óvissa og síbreytilegt efnahagsumhverfi dregur úr getu fyrirtækjanna til að byggja upp. Verðmætasköpun verður minni en ella. Kröfur um launahækkanir verða umfram það sem fyrirtækin geta staðið undir og leiða einungis til aukinnar verðbólgu. Vextir verða hærri en í samkeppnislöndunum. Þannig myndast hinn endalausi spírall launa og verðlags sem Íslendingar þekkja betur en flestar vestrænar þjóðir.

Mikilvægt fyrir stöðugleika í efnahagslífinu er að halda jafnvægi í rekstri hins opinbera - bæði ríkis og sveitarfélaga. Afgangur á rekstri ríkissjóðs skilar strax lægri vaxtakostnaði. Atvinnulífið er ekki á móti því að greiða skatta. Hins vegar vilja fyrirtækin sjá breikkun skattstofna, að undanþágur verði fáar og að skattkerfið sé gegnsætt. Skattkerfið þarf að hvetja til fjárfestinga og auðvelda fyrirtækjum að ráða fólk til starfa. Það þarf einnig að hvetja fólk til að stofna ný fyrirtæki og að það fái að njóta þess þegar vel gengur. Það getur einnig verið liður í því að bæta hag almennings í landinu að endurskoða frá grunni flókið kerfi vörugjalda, tolla og innflutninsgshafta.

Fjárfestingar hér eru nú minni en um áratugaskeið. Þetta á bæði við um fjárfestingar í atvinnulífinu og einnig um fjárfestingar hins opinbera. Afleiðingin er sú að framleiðslutækin og innviðirnir eru að ganga úr sér. Og eftir því sem lengri tími líður lengist sá tími sem það tekur að endurheimta fyrri styrk. Á meðan halda fyrirtæki í samkeppnislöndunum áfram að bæta sig, fjárfesta í nýrri tækni, stunda öfluga nýsköpun og vöruþróun. Þau sem ekki fylgja með dragast aftur úr. Besta leiðin til að auka hagvöxt í landinu er að auka fjárfestingar og þá sérstaklega í útflutningsframleiðslunni. Það þarf einnig að draga úr hindrunum á beinni erlendri fjárfestingu og leggja áherslu á að hún aukist. Með auknum umsvifum í atvinnulífinu aukast einnig tekjur ríkis og sveitarfélaga. Arðbærar fjárfestingar eru besta og fljótvirkasta leiðin til að bæta hag fyrirtækjanna, hins opinbera og um leið alls almennings í landinu.

Til þess að atvinnulífið geti sýnt styrk sinn er nauðsynlegt að fyrirtækin starfi í opnu og alþjóðlegu hagkerfi. Gjaldeyrishöftin draga úr verðmætasköpun fyrirtækjanna og fela í sér óbærilega mismunun milli aðila. Sumir fá að fjárfesta fyrir krónur sem fengnar eru hjá Seðlabankanum með verulegum afslætti . Aðrir þurfa að borga fyrir aðkeypta vinnu og þjónustu með fullu verði samkvæmt opinberu skráðu gengi. Fyrirtæki með rekstrarkostnað í erlendri mynt yfir ákveðnum mörkum eru undanþegin höftunum og það leiðir augljóslega til þess að þau leggja áherslu á að vera yfir þeim mörkum. Smám saman fjölgar þeim fyrirtækjum sem flytja starfsemi sína úr landi, og önnur skipta starfsemi sinni upp í innlendan hluta og erlendan. Kostnaður sem þetta veldur þjóðarbúinu er lítt sýnilegur en eykst jafnt og þétt. Því er það brýn nauðsynt að gjaldeyrishöftin verði afnumin sem fyrst. Það verður að horfa á vandann í heild en ekki einblína á svokallaðan snjóhengjuvanda þótt mikilvægur sé.

Ég tel mikilvægt að stjórnmálaleiðtogarnir sem hér eru svari því hver þeirra framtíðarsýn er um hvernig best sé að örva atvinnulífið. Þeir verða að skapa trúverðuga leið fram á við þar sem öflugt atvinnulíf er grunnur að því að bæta lífskjör í landinu. Um þá sýn verður að ríkja samstaða, það er ekkert svigrúm fyrir flokkspólitískar deilur.

Málið snýst um atvinnupólitík.

Atvinnupólitík sem felur í sér stöðugleika, samkeppnishæft rekstrarumhverfi, skynsamlega skattastefnu, áherslu á fjárfestingar og afnám gjaldeyrishaftanna.

Ég er þakklátur stjórnmálaforingjunum fyrir að vilja koma og fjalla um þessi mál með okkur. Úrlausn þeirra  þolir ekki bið. Samtök atvinnulífsins eru reiðubúin til samstarfs og vilja leggja sitt af mörkum.