8% kaupmáttaraukning á samningstímanum

Kaupmáttur launa hefur vaxið mikið undanfarin ár eins og kunnugt er.  Kaupmáttaraukningin hefur haldið áfram á yfirstandandi samningstímabili þrátt fyrir að verðbólga hafi aukist tímabundið, einkum vegna gengislækkunar krónunnar.  En hver hefur kaupmáttarþróunin verið á samningstímanum á almennum vinnumarkaði?  Meginhluti kjarasamninga rann út um miðjan febrúar árið 2000 og var endurnýjaður á næstu mánuðum á eftir og því eðlilegt að miða upphaf samningtímabilsins við 1. ársfjórðung ársins 2000. 

Nú liggja mælingar Kjararannsóknarnefndar (KRN) fyrir á launum á 2. ársfjórðungi 2001.  Þær sýna að laun hafi hækkað að meðaltali um 9,6% á einu ári.  Á 1. ársfjórðungi þessa árs mældist 13,7% launahækkun frá 1. ársfj. 2000. 

Í meðfylgjandi línuriti eru hækkanir launa og aukning kaupmáttar skv. mælingum KRN tengdar saman í vísitölur sem hefjast á 4. ársfj. 1997.  Tímabilið miðast við þann tíma sem KRN hefur birt niðurstöður sínar með núverandi sniði.  Línuritið sýnir að frá 4. ársfj. 1997 hafa laun á almennum vinnumarkaði hækkað um 28,5% og kaupmáttur þeirra um 12%.  Á yfirstandandi samningstímabili, þ.e. frá 1. ársfj. 2000 til 2. ársfj. 2001 hafa laun hækkað að jafnaði um 15% og kaupmáttur þeirra um 8%.