82% stjórnenda telja svarta vinnu vaxandi vandamál

Ný könnun Samtaka atvinnulífsins meðal aðildarfyrirtækja SA leiðir í ljós að 82% stjórnenda þeirra telja að svört vinna sé vaxandi vandamál á Íslandi, aðeins 18% telja svo ekki vera. Þetta er mikið áhyggjuefni en SA hafa á undanförnum misserum lagt mikið af mörkum í baráttu gegn svartri atvinnustarfsemi, m.a. í samstarfi við embætti Ríkisskattstjóra og Alþýðusamband Íslands.

Fyrirtæki sem borga sína skatta og gjöld standa höllum fæti í samkeppni við fyrirtæki í neðanjarðarhagkerfinu. Samkeppnin er jafn ójöfn og í Tour de France þar sem keppendur urðu að lúta í lægra haldi fyrir Lance Armstrong sem neytti ólöglegra lyfja til að bæta árangur sinn. Það er því mikið hagsmunamál fyrir atvinnulífið að allir fari eftir sömu reglum. Það er ólíðandi að hópur fyrirtækja og einyrkja sniðgangi skattareglur og leggi lítið sem ekkert af mörkum til samfélagsins.

Samstarf atvinnulífsins, skattayfirvalda og verkalýðshreyfingarinnar gegn svartri vinnu á Íslandi hefur vakið athygli á erlendum vettvangi en samstarf sem þetta er nýmæli. Starfsmenn á vegum þessara aðila hafa farið í vinnustaðaheimsóknir til að kanna stöðu mála. Fyrstu niðurstöður voru birtar í nóvember á síðasta ári, þá kom í ljós að 12% starfsmanna í yfir 2.000 fyrirtækjum sem voru heimsótt reyndust í svartri vinnu. Staða mála var könnuð síðastliðið vor og þá komu fram vísbendingar um heldur minna umfang svartrar vinnu, en í síðastliðið sumar var gert sérstakt átak sem sýndi svarta hagkerfið í mikilli uppsveiflu skv. upplýsingum Ríkisskattstjóra. Verst var ástandið hjá þeim sem stunda akstur í ferðaþjónustu, en þar var hlutfall svartrar atvinnustarfsemi rúm 27%, hjá einyrkjum og litlum fyrirtækjum. Stærri fyrirtæki eru almennt með skattskil í lagi. Dæmi eru um að þeir sem eru í svartri vinnu þiggi um leið atvinnuleysisbætur.

Fjöldi rekstraraðila sem hyggjast hagnast mikið á stuttum tíma kemur hvergi fram. Þannig bentu t.d. Samtök ferðaþjónustunnar á það í febrúar 2011 að gistirými án starfsleyfa í Reykjavík jöfnuðust á við tvö 300 herbergja hótel. Á þessu sviði verður samfélagið af miklum fjármunum.

Í vettvangsheimsóknum eru dæmi um að starfsfólk hafi tekið til fótanna, að þjónar kunni ekki að slá inn pantanir í bókhaldskerfi og á einum veitingastað reyndist enginn sex starfsmanna vera á launaskrá.

Það er ljóst að umfang svartrar atvinnustarfsemi á Íslandi er mikið. Í tillögu til þingsályktunar um bætt skattskil sem nú liggur fyrir Alþingi er velta þess metin á 98 milljarða króna á ári, eða um 6% af landsframleiðslu. Vísað hefur verið til þess að með því að skattleggja þessar tekjur megi umbuna þeim sem borga sína skatta og lækka á þá álögur. Undir það taka Samtök atvinnulífsins og telja t.d. rétt að lögfest verði til frambúðar 100% endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu manna við endurbætur eða viðhald íbúða- eða frístundahúsnæðis þar sem átakið Allir vinna hefur tekist einstaklega vel. Þar tóku stjórnvöld, atvinnurekendur og launþegar höndum saman um sérstakt hvatningarátak um endurbætur á húsnæði. Þá er mikilvægt að þróa viðeigandi og hraðvirk úrræði gagnvart þeim aðilum sem augljóslega eru ekki með sín mál í lagi, og halda auk þess úti virku eftirliti á vettvangi í stað þess að rannsaka eingöngu bókhaldsgögn og stefna aðilum fyrir dóm.

Könnunin SA fór fram dagana 9.-16. október 2012. Svör bárust frá 516 fyrirtækjum þar sem starfa um 35.000 starfsmenn. Framkvæmd könnunarinnar var í höndum Outcome og er hún hluti af reglulegum könnunum Samtaka atvinnulífsins meðal félagsmanna SA.

Tengt efni:

Svört vinna skekkir samkeppnisstöðu fyrirtækja - nóvember 2011

Fyrirtækjum fjölgar sem fá ekki athugasemdir frá skattinum - maí 2012

Þingsályktunartillaga um bætt skattskil