80% hækkun launa skilaði 3% aukningu kaupmáttar

Mikilvægt er að líta til annarra norrænna ríkja, sér í lagi Svíþjóðar og Danmerkur, við gerð næstu kjarasamninga, þar sem áhersla hefur verið lögð á að móta samræmda launastefnu í kjaraviðræðum fyrir allan vinnumarkaðinn og halda verðbólgu í skefjum. Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í umfjöllun Morgunblaðsins í dag. Samanburður milli landanna er sláandi.

"Frá 2003 hefur launavísitalan hér á landi hækkað um 80% og kaupmátturinn um 3% en á sama tíma hefur launavísitala í löndum á borð við Svíþjóð og Danmörku hækkað um einhver 25 til 30% en kaupmátturinn um 12 til 14%," segir Þorsteinn.

Í umfjöllun Morgunblaðsins kemur fram að samtök á vinnumarkaði eru byrjuð að undirbúa sig fyrir komandi kjaraviðræður og fóru m.a. nýverið og kynntu sér hvernig staðið er að kjarasamningsgerð hjá nágrannaþjóðunum.

Þorsteinn í samtali við blaðið að draga megi lærdóm af skynsamlegum vinnubrögðum og áherslum við gerð kjarasamninga annars staðar á Norðurlöndum, þar sem ríki, sveitarfélög og einkageirinn koma saman að samningaborðinu, bæði atvinnurekenda- og launaþegamegin, til að móta samræmda stefnu í kjaramálum. Þar vilji menn leggja talsvert mikið á sig til að standa vörð um jafnvægi í kjarasamningum í stað svokallaðs höfrungahlaups, þar sem stéttum er att saman, sem aftur leiðir til almenns launaskriðs og verðbólgu.

"Við hljótum að geta fundið aðrar leiðir sem skila okkur betri árangri en þetta," segir hann og vill ná kaupmættinum upp með markvissum hætti á komandi árum og vinna um leið bug á verðbólgunni.