75% lægst launaðra hækka umfram lágmark
Samkvæmt nýjustu mælingum Kjararannsóknarnefndar (KRN) hafa laun hækkað að meðaltali um 9,6% á einu ári. Inni í þeirri tölu er 3% áfangahækkun launa um sl. áramót sem allir kjarasamningar fólu í sér. Þar sem gildistaka samninga var á mismunandi tímum er óljóst hve stóran hluta þeirra launahækkana sem mælst hafa má rekja til kjarasamninga og hve stóran hluta til hækkana umfram samninga. Ljóst er þó að hækkanir umfram samninga hafa verið verulegar á þessu tímabili.
71% hækka umfram lágmark
Mælingar KRN á launahækkunum eru svokallaðar paraðar
hækkanir. Þær byggjast á því að laun einstaklinga eru borin
saman við þau laun sem þessir sömu einstaklingar höfðu á sama
ársfjórðungi ári áður. Launabreytingar að baki meðaltölum eru mjög
mismunandi og geta ýmist lækkað um á annan tug prósenta eða hækkað
um marga tugi prósenta. Lækkanir geta t.d. stafað af því að
breytilegar greiðslur, eins og bónus í fiskvinnu, geta lækkað milli
ára.
Á tímabilinu 1. ársfjórðungi 2000 til 1. ársfj. 2001 hækkuðu laun skv. kjarasamningum tvívegis, að lágmarki um 3,9% árið 2000 og um 3,0% í ársbyrjun 2001 eða um 7,02% samtals.
Athyglisvert er að bera dreifingu launahækkana skv. mælingum KRN við lágmarkshækkun kjarasamninga. Sá samanburður leiðir í ljós að á 1. ársfjórðungi þessa árs hækkuðu einungis 15% launamanna í úrtakinu til samræmis við lágmarkshækkun kjarasamninga, en rúm 71% hækkuðu meira og rúm 13% minna. Athugun á dreifingu launahækkana einstakra hópa launamanna leiðir í ljós að í þeim starfsstéttum þar sem láglaunafólk er fjölmennast, þ.e. hjá verkafólki og afgreiðslufólki, hækkuðu 75% meira en sem nam lágmarkshækkun kjarasamninga. Þetta kemur fram í meðfylgjandi súluriti.
Athugun á pöruðum hækkunum á 2. ársfjórðungi sýnir svipaða
niðurstöðu. Á 2. ársfjórðungi 2000 höfðu flestir launamenn á
almennum vinnumarkaði fengið sína upphafshækkun en verslunarmenn
fengu hana snemma á fjórðungnum, þ.e. í maíbyrjun 2000. Hjá
flestum launamönnum var því einungis ein samningsbundin hækkun á
tímabilinu 2. ársfj. 2000 til 2. ársfj. 2001, þ.e. 3% hækkunin um
sl. áramót, en vegna þess að upphafshækkun verslunarmanna kom til
framkvæmda á fyrri hluta 2. ársfj. 2000 þá er samningbundin
lágmarkshækkun verslunarmanna liðlega 4% á tímabilinu. Í
súluritinu er miðað við að þeir sem hækkuðu á bilinu 2,5%-4,5% hafi
hækkað u.þ.b. í samræmi við almennar hækkanir kjarasamninga en þeir
sem hækkuðu meira en 4,5% hafi fengið meira en lágmarkshækkun
samninga. Niðurstaðan er sú sama og á 1. ársfjórðungi, þ.e.
að liðlega 70% launamanna hafi hækkað meira en sem nam
lágmarkshækkunum kjarasamninga. Í raun er þó hlutfallið enn
hærra, því vegna sjómannaverkfallsins lækkuðu bónusgreiðslur til
fiskvinnslufólks á 2. ársfjórðungi 2001.