67% landsmanna hafa miklar áhyggjur af verðbólgunni

Ný könnun Capacent fyrir Samtök atvinnulífsins sýnir að 67,4% landsmanna hafa miklar áhyggjur af verðbólgunni, aðeins 10,5% hafa litlar áhyggjur en 22% segja að verðbólgan valdi þeim hvorki miklum né litlum áhyggjum. Áhyggjur fólks af verðbólgu hafa vaxið frá árinu 2005 þegar Samtök atvinnulífsins gerðu sambærilega könnun en þá höfðu 54% landsmanna miklar áhyggjur af verðbólgunni.

Smelltu á myndina til að stækka!

Könnun Capacent sýnir jafnframt að 66,3% landsmanna, eða tveir af hverjum þremur eru hlynntir því að gerð verði þjóðarsátt á vinnumarkaði, þar sem lögð yrði meiri áhersla á stöðugt verðlag og stöðugt gengi krónunnar en í stað þess lögð minni áhersla á launahækkanir. Tæp 17% landsmanna eru andvíg þessari leið og jafn stór hópur er hvorki hlynntur né andvígur slíkri þjóðarsátt.

Smelltu á myndina til að stækka!

Í könnun Capacent fyrir SA kemur jafnframt fram að flestir (44,9%) vilja að mest áhersla verði lögð á að stuðla að lágri verðbólgu með hófsömum launahækkunum í komandi kjarasamningum, 29,2% vilja leggja mesta áherslu á að hækka laun verulega. 11,7% vilja leggja mesta áherslu á að stuðla að fjölgun starfa, 10,2% að stytta vinnutíma en 4% nefndu annað.

Smelltu á myndina til að stækka!

Um könnunina:

Könnunin fór fram 10.-27. október en um var að ræða netkönnun. Könnunin var send til 2.950 manns á öllu landinu, 18 ára og eldri sem voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Capacent Gallup. Fjöldi svarenda var 1.771 og svarhlutfall því 60%.

Tengt efni:

Tveir þriðju Íslendinga vilja þjóðarsátt á vinnumarkaði

Könnun SA frá 2005