47% fyrirtækja uppylla lög um kynjakvóta

Þann 1. september 2013 taka gildi lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og lífeyrissjóða á Íslandi. Lögin ná til einkahlutafélaga og hlutafélaga sem eru með 50 starfsmenn eða fleiri á ársgrundvelli. Samkvæmt nýjum upplýsingum frá KPMG sem birtar voru í dag ná lögin til 321 fyrirtækis og af þeim eru 152 sem uppfylla skilyrði laganna eða 47%. 169 fyrirtæki eða 53% þurfa að jafna kynjahlutföllin í stjórnum sínum og hafa til þess einn aðalfund. Samkvæmt úttekt KPMG vantar 202 konur í stjórnir fyrirtækjanna og 2 karlmenn. Heildarhlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja sem falla undir kvótalögin er nú 21%.

Í úrtaki KPMG voru allir lífeyrissjóðir og félög sem greiddu fleiri en 50 starfsmönnum laun á ársgrundvelli miðað við staðgreiðsluskrá í lok árs 2011. Upplýsingar um stjórnarmenn voru fengnar hjá Creditinfo og miðast við skráða aðalmenn í stjórn 1. september 2012.

Samkvæmt lögunum skulu í stjórn hlutafélags eiga sæti fæst þrír menn. Þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skal hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn þegar stjórn er skipuð þremur mönnum og þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír í slíkum félögum skal tryggt að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40%. Sama gildir um kynjahlutföll meðal varamanna í slíkum félögum en hlutföllin í stjórn og varastjórn skulu þó í heild vera sem jöfnust.

Í stjórn einkahlutafélags skulu eiga sæti fæst þrír menn nema hluthafar séu fjórir eða færri, þá nægir að stjórnina skipi einn eða tveir menn. Ef stjórn félags er skipuð einum manni skal valinn a.m.k. einn varamaður. Þegar stjórnarmenn eru tveir eða þrír í félagi þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skal hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn og þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír í slíkum félögum skal hlutfall hvors kyns ekki vera lægra en 40%.

Kynjakvótalögin ná einnig til allra lífeyrissjóða. Samtök atvinnulífsins hafa á undanförnum misserum unnið markvisst að því að jafna kynjahlutföll fulltrúa SA í sjóðunum.  Að loknum aðalfundum sjóðanna sl. vor skipa konur 44% sæta SA. Aðeins vantar 1-2 konur í viðbót til að alveg jafnt kynjahlutfall náist meðal 25 fulltrúa Samtaka atvinnulífsins í stjórnum sjóðanna. Það mun nást á næsta ári þegar 10 sæti koma til tilnefningar og lokaskrefið verður stigið til að jafna hlut kynjanna. Þá verða konur 12 eða 13 af 25 stjórnarmönnum SA, þ.e. annað hvort 48% eða 52%.

Alls eru 31 lífeyrissjóðir starfandi á Íslandi, og uppfylla 13 þeirra skilyrðin nú samkvæmt úttekt KPMG en 18 eða 58% þurfa að jafna kynjahlutföllin fyrir haustið 2013. Alls vantar 21 konu í stjórnir lífeyrissjóðanna og 1 karl. Heildarhlutfall kvenna í stjórnum lífeyrissjóða er núna 33,3%.

Framkvæmdastjórn ESB hefur lýst yfir áhuga á að taka upp kynjakvóta á stjórnir fyrirtækja fyrir árið 2020 en þar eru mörkin sem um er rætt mun rýmri - eða fyrirtæki með 250 starfsmenn og árstekjur 50 milljónir evra. Lögin á Íslandi ganga því mun lengra.

Sjá nánar á vef KPMG

Lög um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög (eignarhald, kynjahlutföll og starfandi stjórnarformenn).