4,6 prósent verðbólga

Ársverðbólga mælist nú 4,6%, samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar, en til samanburðar mældist hún 2,2% á sama tíma í fyrra. Verðbólga hefur aukist síðustu mánuði sem er verulegt áhyggjuefni og hefur ekki mælst hærri í átta ár. Þetta eru váleg tíðindi, ekki síst í ljósi þess að enn mælist talsverður slaki í atvinnulífinu og mikið atvinnuleysi.

Í kreppunni hafa stjórnvöld og Seðlabankinn með samstilltu átaki beitt aðgerðum til að styðja við heimilin og fyrirtæki. Stýrivextir Seðlabankans eru nú 0,75% og hafa aldrei verið lægri. Á sama tíma er heildarumfang efnahagsaðgerða stjórnvalda metið á um 9% af landsframleiðslu. Þrátt fyrir að vel hafi tekist að milda höggið er efnahagsbatinn ekki hafinn enn.

Launahækkanir brjótast fram

Launahækkanir umfram undirliggjandi verðmætasköpun leiða óumflýjanlega til verðlagshækkana eða atvinnuleysis sem er ekki til þess að flýta fyrir batanum. Í fyrra hækkuðu laun á Íslandi um 6% og á fyrstu þremur mánuðum þessa árs hafa laun hækkað um 11%. Atvinnuleysi mælist 11%.

Öllum má vera ljóst að þegar tveir þriðju hluta verðmætasköpunar í landinu er varið til greiðslu launa og launatengdra gjalda er illt í efni. Þær launahækkanir sem við sjáum nú eru í algjöru ósamræmi við stöðuna í hagkerfinu.

Í könnun meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins telur meirihluti atvinnurekenda að helsti áhrifaþáttur verðbólgu sé launakostnaður. Þegar litið er til launahækkana síðustu mánaða og stöðu hagkerfisins þarf engum að koma á óvart að verðbólgan aukist.

Mikill skaði er fólginn í því að missa verðstöðugleikann frá okkur. Vaxtahækkanir Seðlabankans ofan í brothættan efnahagsbata meðan atvinnuleysi er sögulega mikið og verulegur halli á ríkisrekstri er langt frá því að vera æskileg staða. Um helmingur af íbúðalánum heimila eru óverðtryggð. Vaxtahækkanir munu því bíta fast og hafa bein áhrif á greiðslubyrði þeirra.

Hlutverk Seðlabankans er fyrst og fremst að huga að verðstöðugleika. Ef fram fer sem horfir mun Seðlabankinn óhjákvæmilega þurfa að grípa til aðgerða.