4-5% hagvöxtur nauðsynlegur

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að fjögurra til fimm prósenta hagvöxtur sé nauðsynlegur ef Ísland eigi að ná fyrri styrk á árunum 2015 til 2016. Allt undir því sé stöðnun eða of hægur bati og því ekki boðlegt. Vilhjálmur var frummælandi á hádegisfundi Félags frjálslyndra jafnaðarmanna í liðinni viku þar sem hann lét ofantalin orð falla en fjallað var um fundinn í Fréttablaðinu.

Í umfjöllun blaðsins segir ennfremur:

"Hann [Vilhjálmur] sagði vissulega hafa nokkuð áunnist síðustu ár, sérstaklega hvað varðar að ná jafnvægi í ríkisrekstri, en auka þyrfti fjárfestingu til að koma atvinnulífinu aftur í gang. Hann mæltist til þess að framhaldið yrði skoðað raunsætt og hugmyndafræði yrði ekki látin ráða för.

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra var seinni frummælandi á fundinum og tók fyrst fram að margt hefði áunnist og því væri ekki hægt að saka ríkisstjórnina um aðgerðaleysi. Eftir erfið ár sé nú kominn grunnur til að byggja á til framtíðar og þótt eitthvað hafi mátt fara betur. Hún kallaði því eftir sanngjarnari umræðu.

Hvað varðar erlenda fjárfestingu sagði Katrín að hamlandi kerfi væri ekkert nýtt, heldur hefði það verið landlægt um áraraðir. Hún talaði fyrir því að sett yrðu ný lög þar sem reglur um erlendar fjárfestingar væru skýrðar svo að ekki færi eftir mati í hvert sinn sem slík mál kæmu til álita."

Sjá nánar:

Fréttablaðið, föstudaginn 7. október 2011