3% verðbólga!

Því var slegið fram eftir verðlagsmælingu Hagstofunnar í janúar, að miðað við 12 mánaða verðbólgu uppá 9,4% fælu seðlabankavextir aðeins í sér 0,7% raunstýrivexti. Þetta er í sjálfu sér satt og rétt, en hefur afskaplega lítið með raunveruleika dagsins í dag að gera. Svona mun 12 mánaða verðbólgan líta út þar til sumarmánuðirnir í fyrra, sem fylgdu falli krónunnar, fara út úr þessum samanburði. Þótt janúar sé tekinn með samsvarar verðbólga fyrsta ársfjórðungs 2002 rúmlega 3% verðbólgu á heilu ári, ef mælingin í mars verður hækkun uppá um 0,2%. Miðað við það eru raunstýrivextir Seðlabankans nær því að vera 7% í dag! Seðlabankinn hefur raunar stundum talað um að eðlilegt sé að horfa sex mánuði fram og sex mánuði aftur, þegar raunstýrivextir séu reiknaðir. Samkvæmt því eru þeir nú 5%, miðað við spá bankans um verðbólgu næstu sex mánaða.

Jafnvægi að skapast
Umskiptin í efnahagslífinu eru í raun miklu örari en margir virðast átta sig á og flest sem bendir til þess að það varanlega jafnvægi sé að skapast, sem er forsenda frekari sóknar fyrir íslenskt efnahagslíf. Gengi íslensku krónunnar hefur verið að styrkjast frá lokum síðasta árs. Viðskiptahalli hefur farið ört minnkandi, sem feykt hefur í burtu efasemdum um trega fjármögnun hans, og sú spenna sem einkennt hefur vinnumarkaðinn er að hverfa.

Sem dæmi um minnkandi eftirspurn kemur það fram í nýjasta vefriti fjármálaráðuneytisins, að síðustu þrjá mánuði hefur innflutningur dregist saman um 20% frá fyrra ári, miðað við fast gengi. Viðskiptahallinn er talinn geta orðið um 20 milljarðar á þessu ári eða 2,5% af landsframleiðslu, samanborið við 10% árið 2000. Vöru- og þjónustujöfnuður, án vaxta, er talinn verða jákvæður í fyrsta sinn síðan 1997.

Samkvæmt nýjustu tölum hefur dregið mjög úr launaskriði, sem bendir til að lítil hreyfing verði á vinnuaflsfrekum liðum í vísitölunni á næstunni. Opinberir liðir ættu sömuleiðis að vera kyrrir, og líkur eru á því að það hægist fremur um á húsnæðismarkaðnum. Það lítur því vel út með að markmið aðila vinnumarkaðarins um vísitölugildi í maí náist. Svigrúmið er þó afar lítið gagnvart verðlagshækkunum, eða aðeins 0,7% til og með maí. Enginn má því skorast undan ábyrgð í þeim efnum.

Aukið atvinnuleysi
Engin efni eru því til að halda því fram lengur að spenna ríki á vinnumarkaði. Atvinnuleysi jókst tvöfalt meira milli desember og janúar sl., heldur en venjulegt hefur verið undanfarin ár og var um 2,4% í janúar. Þá mun atvinnuástand hafa haldið áfram að versna síðan, gagnstætt því sem venjan er milli janúar og febrúar. Atvinnuleysi er nú meira á höfuðborgarsvæðinu en verið hefur á þessum árstíma síðan 1998. Það ber líka að hafa í huga að minnkandi atvinna kemur fram í fleiri þáttum en beinu atvinnuleysi, svo sem styttri vinnuviku, minni atvinnuþátttöku, ásókn í skólagöngu og færri leyfisveitingum til erlendra starfsmanna.

Kaupmáttur varinn
Samkvæmt launakönnun Kjararannsóknarnefndar rýrnaði kaupmáttur dagvinnulauna að meðaltali um 2,3% á milli fjórða ársfjórðungs áranna 2000 og 2001. Þrátt fyrir það er kaupmáttarþróun enn jákvæð á samningstímanum í heild, en kaupmáttur hefur vaxið um 4% að meðaltali frá fyrsta ársfjórðungi 2000 til fjórða ársfjórðungs 2001. Einnig hefur komið fram að betur hefur gengið að verja markmið kjarasamninga um meiri hækkun lægri launa en margir óttuðust. Það hlýtur að teljast góður árangur að verja þann ávinning og þá miklu aukningu kaupmáttar sem Íslendingar hafa upplifað síðan 1995. Má til samanburðar hafa í huga það fimmtungs fall kaupmáttar, sem fylgdi í kjölfar góðærisins á skattleysisárinu 1987. Þar er ólíku saman að jafna.