3% atvinnuleysi í nóvember

Í nóvember voru skráðir 87.963 atvinnuleysisdagar á landinu öllu sem jafngilda því að 4.400 manns hafi að meðaltali verið á atvinnuleysisskrá í mánuðinum, eða 3% af áætlun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins um mannafla á vinnumarkaði. Atvinnuleysið var 2,8% í október sl., sem og í nóvember 2002.

3,3% atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu
Atvinnuleysi eykst alls staðar en hlutfallslega mest á Suðurlandi. Mest er atvinnuleysið á Suðurnesjum, 3,4%, og á höfuðborgarsvæðinu, 3,3%. Minnst er atvinnuleysið á Norðurlandi vestra, 1,7%, og á Vesturlandi, 1,8%. Atvinnulausum konum á landinu öllu hefur fjölgað um 5,8% og atvinnulausum körlum um 11,2%.

Sjá nánar í skýrslu um atvinnuástandið á vef Vinnumálastofnunar (pdf-skjal).