26. apríl 2022

Milljarða ávinningur af VIRK

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Milljarða ávinningur af VIRK

30 milljarða ávinningur var af starfsemi VIRK á árinu 2021, reiknað á föstu verðlagi ársins 2021. Þetta sýna niðurstöður skýrslu sem Talnakönnun vann fyrir stjórn VIRK. Rekstrarkostnaður VIRK nam 3,7 milljörðum króna á sama tíma.

Í skýrslunni var einnig reiknaður meðalsparnaður, ávinningur samfélagsins af virkni einstaklinganna, á hvern útskrifaðan einstakling frá VIRK og nam hann 16,2 milljónum króna á árinu 2021, einnig reiknað á föstu verðlagi.

Skýrslan sýnir að ábatinn af starfsendurhæfingarþjónustu á vegum VIRK skilar sér til Tryggingastofnunar, lífeyrissjóða og ríkisins í formi aukinna skatttekna. Til viðbótar kemur bættur hagur einstaklinga, bæði fjárhagslegur auk þeirra lífsgæða sem felast í því að geta tekið fullan þátt í samfélaginu.

VIRK var stofnað árið 2008 í framhaldi af kjarasamningum SA og ASÍ sem kölluðu eftir nýju fyrirkomulagi starfsendurhæfingar á Íslandi. Samtök atvinnulífsins eru stofnaðili að VIRK og eiga fulltrúa í stjórn og framkvæmdastjórn sjóðsins.

Samtök atvinnulífsins