2,3% atvinnuleysi í júní

Í júnímánuði síðastliðnum voru skráðir 71.105 atvinnuleysisdagar á landinu öllu sem jafngilda því að 3.558 manns hafi að meðaltali verið á atvinnuleysisskrá í mánuðinum, samkvæmt skýrslu Vinnumálastofnunar. Þessar tölur jafngilda 2,3% af áætlun Þjóðhagsstofnunar um mannafla á vinnumarkaði í júní 2002.  Meðalfjöldi atvinnulausra var um 0,2% minni í júní en í maí en jókst um 95,5% frá júní í fyrra. Síðustu 10 ár hefur atvinnuleysið hins vegar minnkað um 7,3% frá maí til júní.

Mest á höfuðborgarsvæðinu
Yfirleitt batnar atvinnuástandið frá júní til júlí. Undanfarin 10 ár hefur atvinnuleysið minnkað að meðaltali um 6,2% frá júní til júlí. Að mati Vinnumálastofnunar er hins vegar líklegt að atvinnuleysið í júlí verði nú svipað og í júní eða á bilinu 2,1% til 2,4%. Atvinnuleysið minnkar alls staðar nema á höfuðborgarsvæðinu, þar sem það er mest, eða 2,7%. Minnst er atvinnuleysið á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra, 0,9%.

Sjá skýrslu Vinnumálastofnunar.