200 konur bjóða sig fram til stjórnarstarfa

Framundan er tími aðalfunda en eftir tæp tvö ár eða í september 2013 taka gildi ný lög sem kveða á um að hlutfall hvors kyns verði aldrei lægra en 40% í stjórnum stærri fyrirtækja. Alls falla 285 fyrirtæki undir löggjöfina en af þeim uppfylla 45% ákvæði laganna nú þegar. 55% fyrirtækjanna þurfa því að bæta konu eða konum í stjórnina en eitt fyrirtæki þarf að bæta við karli í stjórnina.

Þetta kom m.a. fram á morgunverðarfundi Samtaka atvinnulífsins, Viðskiptaráðs Íslands, Félags kvenna í atvinnurekstri, Kauphallarinnar, Samtaka verslunar og þjónustu og efnahags- og viðskiptaráðuneytisins sem fram fór í morgun.

Alls vantar 192 konur í stjórnir til að jafna kynjahlutföll þeirra en á fundinum í morgun lagði Félag kvenna í atvinnurekstri fram lista yfir 200 öflugar konur sem bjóða fram krafta sín til setu í stjórnum íslenskra fyrirtækja. Meðal þeirra eru konurnar hér að ofan sem mættu á fundinn í morgun.

Sjá nánar á vef FKA