150 milljarða króna spurningin

"Eftir reynslu síðasta kjörtímabils hafa allir fengið sig fullsadda af endalausum átökum um grundvallaratriði, en það er staðreynd að meiri pólitísk sundrung ríkir hér á landi en meðal nágrannaþjóða. Það ætti að vera forgangsmál ríkisstjórnarinnar að efna til víðtæks samráðs um stefnuna í efnahagsmálum því það er áreiðanlega samhljómur um markmið þótt menn kunni að greina á um leiðir.

Ísland eftirbátur samkeppnisþjóða

Í skýrslu McKinsey um samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs, sem kynnt var á síðasta ári, var leitt fram að á flestum sviðum er hún lakari en í nálægum löndum. Einungis sjávarútvegur og orkugeirinn standa vel.

Bætt samkeppnishæfni alls atvinnulífs, þar með talið heilbrigðis- og menntakerfis, er nauðsynleg til að unnt verði að auka atvinnu, kaupmátt launa og bæta lífskjör almennings.

Grundvöll að betri samkeppnishæfni má leggja með fastmótaðri peningamálastefnu sem tryggir lága verðbólgu, vexti í námunda við það sem gerist í samkeppnisríkjunum og stöðugleika í efnahagsmálum. Einnig verður að koma til ábyrg fjármálastjórn og afgangur af rekstri hins opinbera. Þrátt fyrir fögur fyrirheit margra ríkisstjórna í áratugi um ábyrg ríkisfjármál hefur reynslan sýnt að slíku er vart að treysta. Fjármál ríkis og sveitarfélaga hafa yfirleitt magnað hagsveiflur og stuðlað að óstöðugleika, verðbólgu og háum vöxtum.

Óvissa í efnahagsmálum

Nú hefur ríkisstjórnin kosið að valda óvissu í efnahagsmálum með ýmsum áformum og aðgerðaleysi. Engin stefna hefur komið fram um hvernig losa eigi um gjaldeyrishöftin og tryggja aðgang íslenskra fyrirtækja að alþjóðamörkuðum og frjálsri ráðstöfun eigin fjármuna. Stefna ríkisstjórnarinnar um skipan peningamála hefur enn ekki litið dagsins ljós. Boðaðar breytingar á starfsemi Seðlabankans hafa skapað óvissu þar sem engar vísbendingar hafa komið fram í hverju þær muni felast.

Lögð hefur verið fram tillaga á Alþingi um að slíta aðildarviðræðum við ESB. Um framtíðarskipan samskipta við Evrópusambandið er í greinargerð vísað til skýrslu sem unnin var á árinu 2006 um hvernig unnt væri að auka hagsmunagæslu íslenskra stjórnvalda gagnvart ESB eins og það var á þeim tíma. Í tillögunni er engar vísbendingar að finna um hvaða áhrif síðari breytingar á uppbyggingu ESB kunni að hafa á hagsmunagæsluna og möguleika til áhrifa á sameiginlega löggjöf EES-svæðisins. Slæmt er einnig að ekki er neitt mat lagt á hvaða áhrif slit aðildarviðræðna kunni að hafa á samstarf við ESB og aðildarríki þess.

Innan Samtaka atvinnulífsins eru skiptar skoðanir um aðild en samtökin mæla hvorki með því að Ísland gerist aðili að ESB né leggjast samtökin gegn því. Það er hins vegar afstaða SA að rétt sé að skoða málið gaumgæfilega og að aðildarviðræðum við ESB verði lokið.

Stóra spurningin

Í aðildarumsókn Íslands að ESB fólst sú framtíðarsýn um peningamálastefnu að stefnt væri að aðild að myntbandalagi Evrópu og upptöku evru í kjölfarið. Einnig að hér yrði opið hagkerfi þar sem greið alþjóðaviðskipti og frjálst fjármagnsflæði er meginreglan. Kjarni umræðunnar um aðild að ESB er krafa atvinnulífsins um að íslensk fyrirtæki búi við sambærileg rekstrarskilyrði og í nágrannalöndunum. Undangengna tvo áratugi hefur að jafnaði verið rúmlega 5% vaxtamunur milli Íslands og helstu viðskiptalanda. Að teknu tilliti til verðbólgu hafa raunvextir að jafnaði verið þremur prósentum hærri hér en í viðskiptalöndunum. Þetta samsvarar 150 milljarða króna viðbótar fjármagnskostnaði á hverju ári fyrir íslensk fyrirtæki og heimili. Um það snýst málið.

Ísland þarf skýra stefnu

Með ákvörðunum sínum hefur ríkisstjórnin aukið óvissu um afnám gjaldeyrishafta, framtíð hagstjórnar og peningamálastefnu. Hún hefur ekki lagt fram neina sýn um peningastefnu og efnahagsumgjörð sem tryggir sambærileg rekstrarskilyrði og í nálægum ríkjum. Að óbreyttu munu Íslendingar áfram búa við u.þ.b. 3% raunvaxtamun miðað við nágrannaríkin en þeirri spurningu er ósvarað hvort ný peningamálastefna, byggð á íslenskri krónu, geti skilað umtalsvert betri árangri en reynslan hefur kennt. Að spurningunni ósvaraðri verður ekki unnt að vega og meta kosti og galla aðildar að ESB að neinu gagni.

Óvissa leiðir til minni fjárfestinga en ella, hætta er á að fjárfestar haldi að sér höndum, vextir verði hærri en ella og að samkeppnishæfni atvinnulífsins verði áfram lakari en í nálægum löndum. Skatttekjur hins opinbera aukast ekki eins og þörf er á og mikilvægir innviðir í heilbrigðis-, mennta- og samgöngukerfum halda áfram að ganga úr sér.

Vinnum saman

Fjölmargir forsvarsmenn fyrirtækja og samtaka þeirra hafa komið fram á undanförnum dögum og lýst áhyggjum af stöðu mála. Að baki liggur velvilji og hvatning til ríkisstjórnarinnar um að draga úr óvissu, halda sem flestum möguleikum opnum og hafa samráð um hvernig unnt sé að stuðla að varanlegum stöðugleika, lægri fjármagnskostnaði, auknum fjárfestingum, afnámi gjaldeyrishafta og um leið tryggja betri afkomu ríkisins, aukna atvinnu og betri lífskjör almennings. Mikilvægt er að Alþingi og ríkisstjórnin finni leið til að ljúka málinu í sem mestri sátt og vinni um leið gegn sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið."

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Af vettvangi í febrúar 2014