14% hækkun milli fjárlagafrumvarpa

Útgjöld ríkissjóðs hækka um 14% á milli fjárlagafrumvarpa, frá frumvarpi fyrir árið 2001 til frumvarps fyrir árið 2002. Þessi nálgun veitir mun betri vísbendingu um endanlega útkomu en hækkun frá ríkisreikningi fyrir árið 2001 til fjárlagafrumvarps fyrir 2002.

Útgjöld ríkissjóðs á komandi ári verða 239 milljarðar króna, að því er segir í nýju fjárlagafrumvarpi.  Þetta er 14% aukning frá frumvarpinu sem lagt var fram fyrir ári.  Útgjöldin vinda jafnan upp á sig í meðförum Alþingis (sjá mynd að ofan) og má gera ráð fyrir að svo verði einnig nú.  Viðbótin var óvenju mikil í fyrra, eða tæplega tíu milljarðar króna.  Kann það að eiga sér rót í afganginum sem var á frumvarpinu, en við slíkar aðstæður hefur gjarnan reynst erfitt að verjast nýjum útgjaldahugmyndum.  Í nýja frumvarpinu er gert ráð fyrir 18,6 milljarða afgangi, en  sú fjárhæð er raunar breytileg eftir matsaðferðum.

Að auki fara ríkisútgjöld jafnan fram úr heimildum fjárlaga.  Eyðsla umfram fjárlög hefur verið óvenjumikil seinni ár.  Munar mest um lífeyrisskuldbindingar sem ríkið hefur tekið á sig í kjarasamningum (athugið að útgjaldatala fyrir 2001 er áætlun fjármálaráðuneytis, en ekki úr ríkisreikningi, enda árið ekki liðið). 

Í kynningu á fjárlagafrumvarpinu eru borin saman útgjaldaáætlun fyrir 2001 og frumvarp fyrir 2002.  Samkvæmt þeim samanburði aukast útgjöldin aðeins um 3%.  En eins og lesa má úr myndinni hér fyrir ofan er hætt við að talsvert eigi eftir að smyrjast ofan á töluna í frumvarpinu.

Súluritið hér að neðan sýnir hve mikið ríkisútgjöldin jukust að jafnaði frá fyrra ári 1995-2000. Fyrsta súlan sýnir útkomu samkvæmt ríkisreikningi.  Næsta súla sýnir hækkun frá ríkisreikningi til fjárlagafrumvarps fyrir næsta ár (fjármálaráðherra skoðar hækkun frá áætlun fyrir þetta ár, enda liggur reikningurinn ekki fyrir).  Loks sést útgjaldahækkunin frá einu fjárlagafrumvarpi til annars.  Hækkun frá fyrra fjárlagafrumvarpi er alls ekki nákvæmur mælikvarði á raunverulega útgjaldahækkun, en hún veitir þó miklu betri vísbendingu en hækkun frá ríkisreikningi fyrir árið á undan.