10% framleiðniminnkun hins opinbera í Danmörku

Danir hafa undanfarin ár fetað sig áfram við að mæla framleiðni hins opinbera. Nú hefur danska fjármálaráðuneytið sent frá sér drög að vísitölu fyrir framleiðni hins opinbera á árunum 1990-99. Fundinn er mælikvarði á afköst, eftir því sem hægt er. Til dæmis er fremur auðvelt að mæla afköst bókasafna, þar sem litið er á útlánin.  Í skólum er litið á fjölda nemenda. Sums staðar er framleiðslan margs konar og er þá búin til vísitala vegin eftir kostnaði við hverja afurð. Svo er framleiðni hinna ýmsu stofnana vegin með útgjöldum þeirra. Samkvæmt vísitöludrögunum hefur framleiðni hins opinbera minnkað nokkuð stöðugt á árunum 1992-95 og var tíu prósentum lægri árið 1999 en árið 1990.

Gerðir eru nokkrir fyrirvarar við mælinguna. Þannig nær vísitalan aðeins til tæplega helmings af starfsemi hins opinbera og sums staðar er erfitt að bera framleiðsluna saman frá einum tíma til annars.  Loks koma upp svipuð vandamál við þessar mælingar og þegar verðlag er metið. Til dæmis getur verið að gæði þjónustunnar aukist án þess að magnið breytist. Ekki liggja nægar upplýsingar fyrir til þess að hægt sé að leiðrétta útkomuna vegna þessa. 

Sjá nánar á heimasíðu danska fjármálaráðuneytisins.