100% skattur

Skiptar skoðanir eru um hvernig  snúa eigi miklum hallarekstri ríkissjóðs í afgang. Árin 2009 og 2010 minnkaði landsframleiðslan á Íslandi um 11%, skatttekjur drógust saman en ríkisútgjöld jukust. Þetta leiddi til sársaukafullra ákvarðana um tekjur og gjöld. Aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld  sömdu í júní 2009 um að hlutföllin yrðu 45% á tekjuhlið og 55% á gjaldahlið 2009-2011. Mat SA var að skattahækkanir á árunum 2009-2010 hefðu numið tæpum 70 ma.kr. og gjaldalækkanir rúmum 50 ma.kr. og þá hafi hlutföllin verið 58% á tekjuhlið og 42% á gjaldahlið. Svigrúm til skattahækkana var því nánast ekkert árið 2011 samkvæmt samkomulaginu en samt var haldið áfram á braut skattahækkana og í fjárlagafrumvarpi 2013 er enn áformað að hækka skatta um 22,5 milljarða króna.1)

Í athugasemdum með frumvarpi til laga um tekjuöflun ríkisins í nóvember 2009 var sú kenning sett fram að ríkisútgjöld fjármögnuð með sköttum hefðu örvandi áhrif á hagkerfið. Misskilningur væri að skattheimta samfara útgjaldaaukningu dragi úr eftirspurn í hagkerfinu og leiði til samdráttar. Í reynd væri því öfugt farið. Þessi áhrif væru byggð á fræðilegum kenningum og athugunum með þjóðhagslíkönum, m.a. hér á landi. Ástæðan væri sú að aukning útgjalda ríkissjóðs auki eftirspurn í hagkerfinu meira en nemi samdrætti einkaneyslu vegna skattheimtunnar. Því væri skynsamlegt að beita skattahækkunum til að draga úr halla ríkissjóðs því þær hefðu minni áhrif til lækkunar landsframleiðslu til skemmri tíma en niðurskurður útgjalda. Sú spurning vaknar óhjákvæmilega hvort fylgjendur kenningarinnar telji að skattahækkanir eigi sér engin takmörk og að skatthluföll geti orðið allt að 100% án þess að hafa áhrif á hegðun fólks og fyrirtækja.

Umrædd kenning styðst ekki við rannsóknir á áhrifum skattahækkana. Nefna má fræga og margtilvitnaða rannsókn tveggja hagfræðiprófessora.2 sem komust að þveröfugri niðurstöðu. Rannsóknin fjallaði um áhrif skattahækkana og gjaldalækkana á halla ríkissjóðs til lengri tíma og efnahagslífið almennt. Megin niðurstaðan var sú að aðlögun ríkisfjármála sem byggðist aðallega á lækkun útgjalda til tekjutilfærslna og launagreiðslna væri líklegust til þess að skila árangri og væri hvetjandi fyrir efnahagslífið. Á hinn bóginn væri aðlögun sem byggðist aðallega á skattahækkunum og samdrætti opinberra fjárfestinga ekki líkleg til varanlegs árangurs og stuðlaði að samdrætti. Rannsóknin studdist við gögn frá ríkjum OECD með sérstakri áherslu á þrjú ríki, þ.e. Danmörku, Írland og Ítalíu.

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 8. nóvember 2012.

1) Vefur SA 19.9.2012: Skattar hækka um 22,5 milljarða 2013. http://www.sa.is/frettir/almennar/nr/5593/

2) Alberto Alesina og Roberto Perotti. Fiscal adjustment in OECD Countries. NBER Working Paper 5730 (1996).