100% hækkun launa en kaupmáttur aðeins aukist um 9%

"Við höfum bent á að ein megin orsök verðbólgunnar eru miklar launabreytingar á síðustu árum." Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA í Fréttablaðinu í dag. "Laun á Íslandi hafa hækkað um 100 prósent frá síðustu aldamótum, kaupmáttur hefur á sama tíma aukist um 9 prósent. Á hinum Norðurlöndunum hafa laun að meðaltali hækkað um 40 prósent á sama tíma en kaupmáttur hefur aukist um 18 prósent. Hófstilltar launabreytingar á Norðurlöndunum hafa leitt af sér mun lægri verðbólgu og meiri gengisstöðugleika en við höfum búið við."

Í umfjöllun Fréttablaðsins kemur fram að engin formleg samvinna er hafin milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins vegna komandi kjarasamninga. Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að samtökin hafi á síðustu vikum þrýst á stjórnvöld að hefja þessa samvinnu.