Formaður SA gefur áfram kost á sér

Eyjólfur Árni Rafnsson gefur áfram kost á sér sem formaður Samtaka atvinnulífsins. Hann tók við formennsku í SA árið 2017.

„Aðstæður í efnahagslífinu hafa á skömmum tíma gjörbreyst. Nú er mikilvægast að standa saman við að ná íslensku atvinnu- og efnahagslífi af stað á ný. Í þeirri baráttu erum við öll á sama báti. Efnahagsaðgerðir stjórnvalda, sem ráðist hefur verið í, hafa að markmiði að tryggja afkomu fólks og fyrirtækja, verja grunnstoðir samfélagsins og skapa í framhaldinu öfluga viðspyrnu fyrir efnahagslífið. Samtök atvinnulífsins styðja aðgerðir stjórnvalda eindregið og vinna hörðum höndum að því að fyrirtæki landsins og starfsfólk þeirra geti komist í gegnum þá niðursveiflu sem við nú erum í. Sterk fyrirtæki og öflugt atvinnulíf er forsenda þess að þjóðin geti búið við góð lífskjör á komandi árum.

Framundan eru stærri verkefni en við höfum tekist á við á undanförnum árum og áratugum. 

Viðburðaríkt starfsár er að baki. Víðtæk sátt varð um niðurstöðu kjarasamninga en auk þess urðu Samtök atvinnulífsins 20 ára síðastliðið haust og var sögu samtakanna gerð góð skil í bókinni Frá Þjóðarsátt til Lífskjarasamnings sem kom út af því tilefni. Framundan eru stærri verkefni en við höfum tekist á við á undanförnum árum og áratugum og það er í okkar höndum að sagan reynist á endanum farsæl.“

Eyjólfur Árni hefur áratuga reynslu af stjórnunarstörfum í íslensku atvinnulífi en frá árinu 2016 hefur hann sinnt ýmsum ráðgjafa- og stjórnunarstörfum. Eyjólfur Árni hefur setið í stjórn SA frá árinu 2014 og í framkvæmdastjórn SA frá 2016.

Rafræn kosning formanns meðal aðildarfyrirtækja SA fyrir starfsárið 2020-2021 hefst  þann 6. maí nk. Tilkynnt verður um kjörið á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins 20. maí.

Ársfundur atvinnulífsins 2020 verður haldinn 22. október í Hörpu.